Innlent

Segir blaðið ótengt Framsókn

Helgi Þorsteinsson
Helgi Þorsteinsson
Nýtt blað undir merkjum Tímans mun koma út í fyrsta sinn fimmtudaginn 31. janúar næstkomandi. Þetta staðfestir Helgi Þorsteinsson, sem hefur veg og vanda af útgáfunni og mun ritstýra blaðinu, að minnsta kosti fyrst um sinn.

Auk Helga starfa tveir blaðamenn á miðlinum, sem einnig mun halda úti vef á slóðinni timinn.is frá 28. janúar.

„Þarna verða fréttir, greinar, viðtöl, sport og aðsent efni ásamt nýjungum sem eru ekki á markaðnum núna. Þetta er ekki eitt, þetta er allt,“ segir Helgi.

Blaðið mun koma út í annarri hverri viku til að byrja með en Helgi segir stefnt að því að það muni síðan koma út vikulega. Það verður prentað í 119.135 eintökum og því verður dreift frítt á öll heimili landsins.

Helgi var fyrir skemmstu orðaður við kaup á Fréttatímanum ásamt hópi ónefndra framsóknarmanna. Tíminn var þar til árið 1996 málgagn Framsóknar. Þá var það lagt niður.

Helgi segir hins vegar að nýja blaðið muni ekki tengjast flokknum. „Eina tengingin er sú að ég leigi nafnið af þeim.“ Miðillinn sé að mestu í hans eigu en hann muni upplýsa um aðra fjárfesta þegar nær dregur. „Ég hef svo sem ekki hugmynd um hvað fjárfestarnir kjósa,“ segir hann um tengslin við flokkinn. „En það er engin tenging við kjörna fulltrúa.“- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×