Skoðun

Píratar á Íslandi

Einar Valur Ingimundarson skrifar
Skrítið. Hafa þeir ekki verið þar í ríflega þúsund ár? Er einhver þörf á nýjum flokki ribbalda á meðal vor, nóg er af þeim fyrir! Stuðningsmenn Pírata í meira en 60 löndum hafa reyndar allt aðrar áherslur en hinir ofvirku forfeður Íslendinga.

Píratar hafa sameiginlegar skoðanir og stefnumál sem mótast hafa eftir lýðræðisleg skoðanaskipti og vel upplýsta umræðu á vettvangi netsins heimsálfa á milli. Við trúum því að snúa megi af braut spilltra stjórnmála með frjálsum og óheftum aðgangi fólks með aðstoð tækninnar fyrir opnum tjöldum.

Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda. Á Íslandi hefur almenningur orðið fyrir stórfelldum mannréttindabrotum sl. áratug. Þegar mannréttindi ráðast orðið af efnahag er ljóst að okkur hefur borið af réttri leið. Píratar leggja áherslu á friðhelgi einkalífsins, sérstaklega vernd lítilmagnans frá misbeitingu kerfisvaldsins. Umboðsmenn hinna veikari ráða orðið ekkert við verkefni sín. Vanhæfni opinberra embættismanna dregur samfélagið niður.

Píratar vilja aukið gegnsæi svo almenningur sé vel upplýstur og þar með hæfari til að taka góðar, lýðræðislegar ákvarðanir. Upplýsingar séu aðgengilegar á netinu og almenningsbókasöfnum. Ábyrgð yfirvalda skal skýrt bundin í landslög. Viðurlög skulu vera skýr við öllum undanbrögðum. Píratar styðja beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt. Draga verður úr miðstýringu valds á öllum sviðum. Lögleiðing nýrrar stjórnarskrár er forgangsmál fyrir íslenska pírata.

Píratar virða líf. Þeir styðja friðarhreyfingar. Þeir hafna dauðarefsingu og eyðileggingu umhverfis og náttúru. Við stefnum að sjálfbjarga samfélagi þar sem allir landsmenn eigi sama aðgang að auðlindunum. Píratar viðurkenna ekki einkaleyfi á lífi. Píratar eru félagslyndir og virða mannhelgi. Við viljum koma að því að móta samfélag samstöðu þar sem þeir sterku styðja þá veiku.




Skoðun

Sjá meira


×