Skoðun

Þjóðfélagsleg ábyrgð? Athugun og ábyrgð við ráðningu

Guðmundur Ingólfsson skrifar
Nýleg umfjöllun um óhugnanleg kynferðisbrot gagnvart börnum vekur upp áleitnar spurningar sem lítið hefur verið fjallað um og tengjast ábyrgð vinnuveitenda. Telja má að í dag ríki ákveðin samfélagssátt um að barnaníðingum verði ekki falin störf við umönnun barna. Hreint út sagt ætti slíkt að vera sjálfsagt. Alþingi hefur þess vegna sett um slíkt ákvæði í æskulýðslög, lög um leikskóla og lög um grunnskóla. Samkvæmt þeim lögum er atvinnuveitendum og stjórnendum þessara stofnana gert óheimilt að ráða einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm fyrir einhver ákvæði kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Auðvitað, segja einhverjir við sjálfa sig. En hvernig er atvinnuveitendum ætlað að geta tryggt að svo sé raunin? Að þeir ráði ekki dæmda barnaníðinga eða aðra óæskilega í slík störf. Greinarhöfundar velta því fyrir sér hvort nú sé ekki tími til að innleiða kerfi aukinnar athugunar umsækjenda við ráðningar í viss störf.

Undanfarin tuttugu ár eða svo hefur aukin athugun á umsækjendum um viss störf rutt sér til rúms í Evrópu og í mörgum samanburðarríkjum okkar eru slíkar athuganir nú skilyrði fyrir ráðningu. Á það jafnt við um störf þar sem nauðsynlegt er að meðhöndla trúnaðarupplýsingar á vegum ríkis eða einkaaðila sem og fyrir störf við gæslu, kennslu eða umönnun barna, aldraðra og fatlaðra. Hugmyndin er einföld. Takmarka aðgengi ákveðinna einstaklinga að störfum og stöðum þar sem þeir eru öðrum eða sjálfum sér til hættu.

Í íslenskum lögum um leikskóla nr. 90/2008 má finna bann við ráðningu einstaklings sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Af því banni má draga þá ályktun að atvinnuveitendur og stjórnendur leikskóla beri ábyrgð á því að þar starfi ekki einstaklingar sem hafa hlotið refsidóm fyrir kynferðisbrot.

Umsækjendur athugaðir

Til þess að koma í veg fyrir slíkt er stjórnendum leikskóla veitt heimild í lögum til að fara fram á að umsækjandi skili sakavottorði, eða veiti heimild til atvinnuveitandans til að afla þess. Slík eru í dag einu núverandi úrræði atvinnuveitandans, fyrir utan eigið innsæi, til að vinna úr umsóknum í slík vernduð störf. Ljóst er að óæskilegir einstaklingar hafa sótt í slík störf áður og að nauðsyn er fyrir verndinni. En hvernig hjálpar sakavottorð að fæla frá þá sem óæskilegir eru?

Sakavottorð sem umsækjandi aflar sjálfur inniheldur aðeins upplýsingar um dæmda refsingu fyrir brot viðkomandi á hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni í fimm ár eftir að refsingu lauk.

Dæmi: Hefði umsækjandi um starf í leikskóla verið dæmdur til refsingar fyrir barnaníð en lokið afplánun árið 2007, þá myndi sá dómur ekki finnast á sakavottorði í dag. Viðkomandi atvinnuveitandi myndi þar af leiðandi ekki sjá ástæðu af sakavottorðinu einu saman til að telja umsækjandann vera dæmdan kynferðisafbrotamann, mögulega hættulegan börnum.

Svona er þetta ekki gert alls staðar. Af samanburðarríkjum okkar er hugsanlegt að Bretar hafi náð hvað bestum árangri við að auka öryggi, án þess þó að brjóta á rétti umsækjenda. Þar þykja auknar athuganir á umsækjendum um vernduð störf sjálfsagðar.

Í Bretlandi fara í kringum þrjár milljónir umsækjenda og starfsmanna í gegnum athugun á ári hverju. Þar hefur aukin bakgrunnsskoðun opinberra starfsmanna verið við lýði frá því snemma á fimmta áratugnum og grunnathugun á sakavottorði og málaskrá lögreglu fyrir m.a. kennara, umsjónarmenn fatlaðra, hjúkrunarfræðinga og æskulýðsráðgjafa verið framkvæmd í um það bil fimmtán ár. Stjórnvöld þar halda enn fremur skrár um dæmda kynferðisbrotamenn sem tryggir að þeir einstaklingar vinni aldrei með börnum. Til viðbótar við skrárnar voru sett lög til aukinnar verndar börnum og öðrum sem minna mega sín (e. Child Protection Act og Safeguarding Vulnerable Groups Act) sem gerðu vinnuveitenda ábyrga fyrir aukinni athugun atvinnuleitenda. Enn fremur var bætt við könnun á svokölluðum bannlistum (e. barred registers). En þeir eru t.d. skrár yfir einstaklinga sem hugsanlega hafa ekki hlotið refsidóm fyrir kynferðisafbrot, en hefur engu að síður verið bannað að vinna með börnum.

Öryggið eykst

Innan Evrópu hefur auknum athugunum verið vel tekið og þær framkvæmdar án þess að brjóta á rétti einstaklinga eða atvinnuveitenda. Reynslan sýnir að öryggi viðkvæmustu þegna þjóðfélagsins eykst með slíkri framkvæmd. Þess verður þó að gæta að framkvæmd slíkra athugana sé ávallt í samræmi við markmið þeirra á hverjum tíma, þær framkvæmdar faglega, af sanngirni og í hlutfalli við þá vernd sem verið er að veita hverju sinni. Þar af leiðandi er mikilvægt að til staðar séu mismunandi stig athugana og inngrips, þar sem mismunandi stigum er beitt í hlutfalli við atvik hverju sinni og ljóst er að ekki þarf bakgrunnsskoðanir fyrir öll störf.

En hver ætti að framkvæma slíkar athuganir? Víða í Evrópu hefur það færst í vöxt að einkaaðilum sé treyst fyrir þessari framkvæmd en mikilvægt er að tryggja að þeir sem framkvæma slíkar athuganir séu sérfræðingar með viðeigandi menntun og reynslu. Geta slíkir óháðir og faglegir sérfræðingar annast slíka athugun fyrir hönd atvinnuveitanda í fullu samræmi við lög og reglur um persónuvernd, mannréttindasáttmála, upplýsingalög o.fl.

Að lokum verður að hafa í huga að sama hversu ítarlegar og nákvæmar slíkar athuganir eru geta þær aldrei fyllilega komið í veg fyrir glæpsamlega starfsemi eða misnotkun í starfi. Hins vegar myndi markviss innleiðing slíkra framkvæmda vafalaust auka öryggi upplýsinga og viðkvæmra einstaklinga og veita mikilvægt tæki til að stöðva brotaferil níðinga, eins og þeirra sem til umfjöllunar hafa verið undanfarið, mun fyrr.




Skoðun

Sjá meira


×