Innlent

Kjarasamningar ekki skýring verðbólgu

Aðalhagfræðingur Seðlabankans segir kjarasamninga frá 2011 ekki hafa skilað því sem að var stefnt heldur kynt undir verðbólgu og lækkað gengi krónunnar.
Aðalhagfræðingur Seðlabankans segir kjarasamninga frá 2011 ekki hafa skilað því sem að var stefnt heldur kynt undir verðbólgu og lækkað gengi krónunnar. FréttablaðiÐ/Anton
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, gefur lítið fyrir gagnrýni Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, á gildandi kjarasamninga frá 2011. Gylfi segir þá ekki skýra verðbólgukúfinn á árunum 2011 og 2012, hvað þá veikt gengi krónu.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), gefur lítið fyrir þá skoðun Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, að gildandi kjarasamningar frá 2011 hafi kynt undir verðbólgu og lækkað gengi krónunnar. ASÍ hefur krafist frekari launahækkana á þessu ári en samið var um þá.

Fréttablaðið birti í gær grein eftir Þórarin þar sem hann lýsti þeirri skoðun að miklar launahækkanir við endurskoðun gildandi kjarasamninga myndu ekki bæta kaupmátt launafólks heldur einungis kynda undir verðbólgu.

Þá sagði jafnframt í greininni að þær launahækkanir sem samið var um árið 2011 hefðu einmitt ekki skilað því sem að var stefnt heldur leitað út í verðlag og þar með lækkað gengi krónunnar.

„Mér finnst þetta vera lítið og fátæklegt innlegg í umræðuna. Verðbólga hefur vissulega verið mikil en það er alveg nýtt mat hjá Þórarni að veik staða krónunnar sé vegna kjarasamninganna,“ segir Gylfi og heldur áfram: „Við skulum ekki gleyma því að krónan hrundi árið 2008 og ég sé því ekki alveg hvernig kjarasamningar frá 2011 hafa orsakað þessa stöðu.“

Þá segir Gylfi að Seðlabankanum sé nær að líta í eigin barm þar sem bankinn hafi ekki ráðið við það verkefni sitt að hafa taumhald á krónunni, sem sé þó í höftum.

Þegar skrifað var undir gildandi kjarasamninga í maí árið 2011 var tólf mánaða verðbólga 3,4%. Á skömmum tíma í kjölfarið hækkaði verðbólga í 6,5% þegar hún fór hæst í janúar 2012. Síðan hefur verðbólga lækkað hægt og rólega og mælist nú 4,2%.

Spurður hvort kjarasamningarnir hafi ekki skýrt þennan verðbólgukúf að hluta svarar Gylfi: „Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að launahækkanir hafa áhrif á kostnað fyrirtækja og þar með að einhverju leyti á verðbólgu. En þegar laun hækka um 4% og launahlutfall í fyrirtækjum er beint og óbeint um 35 til 40% þá getur 4% launahækkun ekki skýrt 6,5% verðbólgu.“

Gylfi segir að 4% launahækkun hefði átt að leiða af sér 1,6% verðhækkun og þar með 2,4% kaupmáttaraukningu. Það hafi hins vegar ekki orðið raunin. „Skal menn undra að við berum okkur nú aumlega og biðjum um launahækkun á móti þessu?“ segir Gylfi að lokum.magnusl@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×