Lífið

Ný kynslóð farsímakerfa

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Munurinn er mikill á 3G og 4G.
Munurinn er mikill á 3G og 4G. MYND/JÓNAS
4G, fjórða kynslóð farsímakerfa, finnst um allan heim en þó er misjafnt á hvaða tíðniböndum 4G-þjónustan er veitt og því ekki sjálfgefið að fólk geti nýtt sér þjónustuna hvar sem er.

Útbreiðslan er líka misjöfn eftir landsvæðum og er sem dæmi mun meiri í Bandaríkjunum en í Evrópu.

Fyrir notendur liggur munurinn á 3G og 4G fyrst og fremst í gagnaflutningshraðanum, sem er margfalt meiri í 4G-kerfi en í 3G-kerfi. Niðurhal og upphal á gögnum verður hraðara og notkunarmöguleikar snjalltækjanna verða meiri. Hraðamunurinn getur orðið allt að tífaldur.

4G-tæknin gerir notendum kleift að ná allt að 100 Mb/s hraða en 3G-tæknin allt að 42 Mb/s hraða. Þá er viðbragðið í 4G-kerfinu mun hraðara og upplifunin fyrir viðskiptavininn mun betri.

4G-þjónusta er þegar í boði á stórum svæðum á Suður- og Vesturlandi, á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Símafyrirtæki landsins hafa lagt ríkasta áherslu á þjónustu við svæði þar sem þörfin er talin mest. Þetta á til dæmis við um stór sumarhúsasvæði sem komust í gott netsamband þegar Vodafone hóf sína 4G-þjónustu síðastliðið sumar en töluvert er í að 4G-þjónusta verði alls staðar í boði.

Enn sem komið er eru tiltölulega fá 4G-símtæki í notkun hér á landi, eða hjá um 2 prósentum viðskiptavina. Það er hins vegar að breytast hratt, enda eru mörg ný tæki með 4G-virkni.

Verð á gagnamagni er óháð því hvaða tæki viðskiptavinir velja að nota. Hins vegar er viðskiptavinur með 4G-snjalltæki líklegur til að nota meira gagnamagn en viðskiptavinur með 3G-snjalltæki, sem getur aukið kostnaðinn.

Fjölmörg góð tæki eru til sölu hjá símafyrirtækjum landsins sem styðja 4G. Mikið hefur borið á umræðu um af hverju iPhone 5 virkar ekki í 4G-kerfinu hér á landi. Svarið er einfaldlega að Apple þarf að gefa grænt ljós á þá notkun en það hefur enn ekki gengið eftir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.