Skoðun

Það Besta við Bjarta framtíð ...

Guðjón Sigurðsson skrifar
Ég geri engan greinarmun á Besta flokknum og Bjartri framtíð, sami grautur í sömu skál.

„Alls konar fyrir aumingja“ var slagorð Jóns Gnarr fyrir síðustu kosningar. Þetta boðaði Bjarta framtíð fyrir okkur aumingjana sem ég hélt hann ætti við. Ég gat vel sætt mig við grínið ef eitthvað væri gert fyrir okkur hjá borginni. Aðgengi að miðbænum lagað, við kæmumst út í Viðey á hjólastólum og ekki síst aukið fé til að tryggja okkur „aumingjunum“ sjálfstætt líf.

Nú lítur maður yfir farinn Gnarr-veg og áttar sig á því að „aumingjarnir“ sem hann átti við voru hjólandi, lattelepjandi trefla „aumingjar“ sem búa í 101 Reykjavík. Hann fór um daginn eina ferð um miðbæinn í rafmagnshjólastól til að skoða það sem hann vissi, Viðey er enn þá ófær, hann setti upp hindranir fyrir hreyfihamlaða á Laugaveginum, hann á ekki meira fé til velferðarmála, hann málaði Hverfisgötuna græna fyrir hjólandi, eyddi tugum milljóna í fíflagang á Hofsvallagötu en það er allt ríkinu að kenna að ekki er hægt að bæta fé í velferðarmálin. En auðvitað er ekkert að skiptingu fjármagns innan borgarinnar. Eða hvað?

En Jón Gnarr stendur við eitt loforð, „alls konar fyrir aumingja.“ Það er bara spurningin hver er auminginn? Allavega ekki ég. Kannski er það bara Jón Gnarr og hirðsveit hans sem eru aumingjarnir?

Hvern á ég að kjósa næst?




Skoðun

Sjá meira


×