Skoðun

Lausnin í málefnum utangarðsfólks?

Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar
Þjónusta við utangarðsfólk í Reykjavík hefur aukist svo um munar á undanförnum árum og aðbúnaður utangarðsfólks virðist borgaryfirvöldum hugleikinn, enda er þörfin brýn. Þeim áföngum sem náðst hafa í aukinni þjónustu við þennan hóp ber að fagna en það er hinsvegar ljóst að enn er úrbóta þörf. Heimilislausum er enn að fjölga og þau úrræði sem í boði eru mæta í mörgum tilvikum ekki þörfum þeirra sem þeim er ætlað að þjónusta.

Að vera utangarðs felur það í sér að lifa lífi sem ekki er innan hefðbundins ramma samfélagsins. Stór hópur þeirra sem teljast utangarðs er fólk með króníska sjúkdóma, svo sem áfengisfíkn, vímuefnafíkn og geðsjúkdóma. Flestir í þessum hópi utangarðsfólks eiga við margþættan vanda að stríða sem gerir þeim erfitt fyrir að fóta sig í samfélaginu í hefðbundnum skilningi. Þegar þjónusta á tiltekin hóp verða þarfir hans að vera í forgangi og úrræði að vera þess eðlis að umræddur hópur geti nýtt sér hana.

Skaðaminnkun er hugtak sem notað hefur verið í síauknu mæli í umræðunni um utangarðsfólk. Hugtakið felur það í sér að virðing fyrir einstaklingnum sé höfð að leiðarljósi, að sá skaði sem lífshættir hafa á einstaklinginn sé lágmarkaður og að honum sé mætt þar sem hann er staddur, án skilyrða um að einstaklingurinn sé edrú. Það er staðreynd að stór hópur utangarðsfólk á við langvarandi vímuefnavanda að stríða og hefur ekki tekist að fóta sig í hefðbundnum meðferðarúrræðum. Skaðaminnkun hefur gefið góða raun í vinnu með fíklum í mörgum nágrannalöndum okkar sem endurspeglast meðal annars í því að nálgunin er orðin hluti af stefnumótun í vímuefnamálum allra þeirra þjóða sem tilheyra Evrópusambandinu. Þessi nálgun hefur, sem dæmi, gefið góða raun sem forvörn gegn útbreiðslu smitsjúkdóma og of stórum skömmtum. Reykjavíkurborg hefur þegar tekið skref í átt að skaðaminnkun í mörgum þeim úrræðum sem í boði eru fyrir utangarðsfólk, svo sem nálaskiptiþjónusta Frú Ragnheiður, Konukot, Gistiskýlið, Dagsetur, Borgarverðir o.fl. Staðreyndin er engu að síður sú að erfiðlega gengur að stíga skrefið til fulls og skaðaminnkun er ekki formlega hluti af stefnumótun í heilbrigðismálum á Íslandi eins og víða tíðkast.

Ef yfirvöld ætla sér að þjónusta þennan hóp, sem þeim ber, er mikilvægt að honum sé mætt þar sem hann er staddur. Hvernig erum við að mæta þörfum fólks ef þarfir þess eru ekki hafðar að leiðarljósi? Ætlum við að vera samfélag sem veitir þjónustu litaða af firringu, fordómum og forræðishyggju eða ætlum við að veita þjónustu byggða á valdeflingu, stuðningi og þörfum þjónustuþega. Við erum nú þegar aftarlega á merinni þegar kemur að þjónustu við utangarðsfólk þegar litið er til nágrannalandanna og það er tímabært að tekist sé á við vandann eins og hann er, ekki eins og við kjósum að sjá hann.




Skoðun

Sjá meira


×