Skoðun

Bylting kvenna 2013

Sigríður Dóra Sigtryggsdóttir skrifar
Byltingu hefur verið hrundið af stað. Fyrir henni standa konur og menn sem sinna þeim störfum sem einhvers staðar á leiðinni fengu viðurnefnið „hefðbundin kvennastörf". Hjúkrunarfræðingar Landspítala - háskólasjúkrahúss hafa hrundið af stað þessari byltingu.

Þeir hafið blásið okkur byr í brjóst og gefið okkur von og trú um að það sé hægt að afnema þann kynbundna launamun sem við höfum búið við alla tíð og virðist hingað til hafa verið óbreytanleg staðreynd. Þrátt fyrir það, og nú leyfi ég mér að taka djúpt í árinni og skella fram órökstuddri staðhæfingu, að alltaf virðist vera hægt að ausa fjármunum ríkissjóðs í aðra hluti höfum við konur ævinlega setið eftir, og um leið þið karlmenn sem hafið valið okkar góðu „kvennastörf" að ævistarfi.

Í mínum huga er hér verið að há byltingu fyrir hönd kvenna allra stétta, fyrir dætur okkar sem eiga að mínu mati að fá að sitja við sama borð og synir okkar í framtíðinni. Þær eiga rétt á sjálfstæði. Þær eiga rétt á því að geta verið fjárhagslega sjálfstæðar í stað þess að vera undir afkomu eiginmanna sinna komnar, þrátt fyrir sambærilega menntun og starfsreynslu.

Við konur höfum áður snúið bökum saman og sem ein heild náð árangri. Hvort sem við erum hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, geislafræðingar, leikskólakennarar, þroskaþjálfar eða heimavinnandi. Þetta er barátta okkar allra!

Ég geri mér grein fyrir því að ófá okkar upplifa mikla togstreitu þessa dagana. Því er hamrað á okkur í fjölmiðlum að velferð þjóðarinnar sé í okkar höndum og það sé okkar og einungis okkar að koma í veg fyrir þær grafalvarlegu aðstæður sem u.þ.b. eru að fara að skapast, „sé það ætlun okkar að halda uppsögnum til streitu" eða „ef við sjáum ekki að okkur".

Það er mikilvægt að muna að það er ekki á ábyrgð okkar heilbrigðisstarfsmanna eða okkar kvenna eingöngu að rétta úr beygluðum og úr sér gengnum peningabauk þjóðarbúsins. Það er ábyrgð þeirrar ríkisstjórnar sem við kusum yfir okkur, því það á að teljast sérhæfing þeirra sem þess óskuðu eftir harða kosningabaráttu og fögur fyrirheit. Þar á meðal voru fögur fyrirheit um útrýmingu á kynbundnum launamun og almennu launamisrétti.

Það er því ekki okkar að axla þá ábyrgð og/eða hafa áhyggjur af því hvaðan þeir fjármunir verða teknir sem munu koma til með að leiðrétta kynbundinn launamun og jafna út launamisrétti, heldur þeirra sérfræðinga sem óskuðu eftir því að sjá um það fyrir okkur. Við munum hins vegar sinna okkar sérfræðistörfum í þeirra þágu líkt og hingað til hefur verið gert þrátt fyrir miskunnarlausan niðurskurð.

Það er okkar hugsjón en það getur enginn lifað á hugsjóninni einni saman... jafnvel þó maðurinn sé kona eða heilbrigðisstarfsmaður undir niðurskurðarhnífnum.

Ég dáist að ykkur hjúkrunarfræðingum sem sögðu skilið við óttann við breytingar, stigu fram og sögðu starfi sínu lausu! Þið gerðuð þetta fyrir okkur öll hin líka.

Ég er kjarklaus ein og get jafnvel verið sökuð um að kvarta en aðhafast ekki sem hefur ekkert að segja okkur til framdráttar. Ég er kjarklaus ein en innan okkar sterka hóps mun ég treysta því að breytingarnar muni verða okkur konum og dætrum okkar í framtíðinni til góða!

Konur eru konum bestar. Áfram konur!




Skoðun

Sjá meira


×