Innlent

Vilja byggja hjúkrunarheimili við Hádegisskarð

Sjálfstæðismenn vilja tryggja framtíð Sólvangs sem öldrunarmiðstöðvar.
Sjálfstæðismenn vilja tryggja framtíð Sólvangs sem öldrunarmiðstöðvar.
Starfshópur bæjarráðs Hafnarfjarðar lagði fram tillögu á Bæjarráðsfundi í gær þar sem lagt var til að bjóða út byggingu hjúkrunarheimilis við Hádegisskarð í Hafnarfirði. Skipuð verður verkefnastjórn sem sjái um útboð vegna þessa og eftirfylgni með þeim.

Horft er til þess að hjúkrunarheimilið hafi pláss fyrir 60 íbúa, við hönnun skal hinsvegar líka taka tillit til hugsanlegar stækkunar hjúkrunarheimilisins í framtíðinni og þeirrar stoðþjónustu sem tengst gæti starfsemi þess í byrjun eða í náinni framtíð að því er fram kemur í tillögum hópsins.

Bæjarfulltrúar Sjálftæðisflokksins gera þó athugasemdi við þetta. Í bókun sem þeir lögðu fram samþykkja þeir fram komna tillögu starfshóps, um að stofnuð verði verkefnastjórn sem undirbúi útboðsferli vegna byggingar nýs hjúkrunarheimilis, en vilja að nokkur atriði liggi jafnframt fyrir hið fyrsta.

Meðal þeirra er að „staðið verði við fyrri samþykktir skýrslu starfshóps frá 2006, og ítrekun starfshóps fjölskylduráðs frá 2012, um áframhaldandi þróun og uppbyggingu Sólvangssvæðisins, þar sem verði framtíð miðstöðvar öldrunarþjónustu í Hafnarfirði. Samið verði við ríkisvaldið um að þetta gangi eftir," eins og segir í fundargerð bæjarráðs. Þá vill Sjálfstæðisflokkurinn að kostnaðargreining verði framkvæmd hið fyrsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×