Innlent

Loks festur í lög eftir tuttugu ár

Alþingi lögfesti Barnasáttmála SÞ í vikunni, tæpum tuttugu árum eftir að hann tók formlega gildi hér á landi.
fréttablaðið/Valli
Alþingi lögfesti Barnasáttmála SÞ í vikunni, tæpum tuttugu árum eftir að hann tók formlega gildi hér á landi. fréttablaðið/Valli
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var formlega festur í lög á Alþingi á miðvikudag, tæpum tuttugu árum eftir að hann var fullgiltur hér á landi þann 28. október árið 1992.

Samningurinn var undirritaður af hálfu Íslands þann 26. janúar árið 1990 og öðlaðist gildi hér á landi 27. nóvember 1992.

„Þetta er mikil réttarbót fyrir börn á Íslandi,“ segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. Sáttmálinn hafi verið álitinn leiðarljós samtakanna sem hafa lengi barist fyrir lögfestingu hans hér á landi. „Það er því mikið fagnaðarefni að nú sé Barnasáttmálinn loksins orðinn löggiltur og að hægt sé að beita ákvæðum hans fyrir íslenskum dómstólum sem settum lögum.“

Alþjóðasamtök Barnaheilla, Save the Children, sendu frá sér tilkynningu vegna málsins í gær þar sem fram kom að samtökin hefðu frá upphafi barist ötullega fyrir réttindum barna og segja mætti að saga samtakanna væri samofin sögu Barnasáttmálans og baráttu fyrir réttindum barna.

Þá sendi Unicef á Íslandi frá sér tilkynningu í gær þar sem áfanganum er fagnað og þingmönnum færðar þakkir. Samtökin segja að um tímamót sé að ræða. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×