Skoðun

Chanel-varalitur í neyðaraðstoð

Lydía Geirsdóttir skrifar
Eitt eftirminnilegasta atvikið á þeim áratug sem ég hef starfað við þróunar- og neyðaraðstoð átti sér stað einn venjulegan dag á götum Kabúl. Nokkrum dögum fyrr hafði ég í fyrsta sinn fest kaup á glæsilegum eldrauðum Chanel-varalit. Þennan morgun var ég búin að bera á mig dýrgripinn og sat ánægð með mig í bílnum á leið á fund. Þetta var blautur og kaldur dagur og ég var þakklát fyrir miðstöðina í bílnum.

Leið eins og hræsnara

Fyrr en varði var ég föst í daglegri umferðarteppu og þegar mér varð litið út um gluggann sá ég gamlan mann með þroskahamlaðan son sinn í göturæsinu, leitandi að einhverju verðmæti í ruslinu. Fátækt og eymd þeirra var eins örg og hún gerist, skítugar fatatutlurnar gerðu ekki mikið til að fela þeirra horuðu líkama. Feðgarnir komu auga á mig og ákváðu að færa sig nær glugganum.

Í tuttugu mínútur stóðu þeir friðsamlega við gluggann og virtu mig fyrir sér, í hellirigningu og kulda án þess að segja orð. Þarna sat ég, þurr og hlý með minn glansandi varalit og með hverri mínútu sem leið óx mín skömm. Mig langaði til að segja þeim að ég væri í landinu til að hjálpa, til þess að milda eymd landa þeirra, en í ljósi glansandi vara minna og þæginda leið mér líkt og hræsnara. Stundin risti djúpt í sál mína því veruleiki okkar stóðst engan samanburð.

Markmiðið

Hið stórkostlega ár 2007 var Ísland ríkasta og farsælasta þjóð í heimi, framlag okkar til aðstoðar náungans í heiminum var 0,25% af vergri þjóðarframleiðslu, ólíkt því eina prósenti sem sambærilegar þjóðir leggja af mörkum.

Hér skall á hrun eins og allir vita og það mun líklegast taka okkur tíma að ná prósentunni, sem enn stendur sem okkar markmið. Hins vegar heyrast stundum raddir um að við höfum engan veginn efni á því að veita öðrum aðstoð vegna bágrar fjárhagsstöðu okkar. Slík orð minna mig á þennan morgun í Kabúl, því þrátt fyrir erfiðleika stenst okkar raunveruleiki engan samanburð við þá eymd sem hrjáir allt of marga samferðamenn í heiminum. Velferð og sedda bragðast svo miklu betur þegar við öll njótum sömu forréttinda.




Skoðun

Sjá meira


×