Enski boltinn

Chicharito bjargaði Man. Utd

Mexíkóinn Javer Hernandez var hetja Man. Utd í dag er hann skoraði sigurmarkið gegn Stoke. United lenti tvisvar undir í leiknum en kom til baka og landaði gríðarlega mikilvægum sigri. Liðið situr engu að síður sem fastast í áttunda sæti deildarinnar.

Það byrjaði illa hjá Man. Utd því Peter Crouch kom Stoke yfir strax á 4. mínútu. Aðeins níunda markið sem Man. Utd hefur fengið á sig á fyrstu fimm mínútum heimaleiks síðan enska úrvalsdeildin var stofnuð.

Varnarleikur Man. Utd var í molum og Stoke var líklegra til þess að bæta við en United að jafna þó svo heimamenn væru mun meira með boltann.

Jöfnunarmarkið kom þó skömmu fyrir hlé. Rooney með skalla að marki sem var varinn. Van Persie hirti frákastið og jafnaði.

Man. Utd var nánast enn að fagna jöfnunarmarkinu þegar Marko Arnautovic kom Stoke aftur yfir með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu.

Það var lítið að gerast í leik United þegar Wayne Rooney jafnaði leikinn. Snilldarskalli eftir hornspyrnu. Markið kveikti í United því varamaðurinn Javier Hernandez kom United yfir tveim mínútum síðar.

Góður sprettur hjá Evra upp vænginn. Hann gaf fyrir þar sem Chicharito stangaði knöttinn í netið af stuttu færi.

Léttir fyrir Moyes og félaga en frammistaða liðsins í dag var engu að síður langt frá því að vera sannfærandi.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×