Skoðun

Gagnagrunnur gegn ferðafrelsi

Nú er komið fram frumvarp til náttúruverndarlaga og liggur það fyrir Alþingi. Í þessu nýja frumvarpi er ýmislegt ágætt en einnig margt sem er undarlegt, illa skilgreint eða sem beinist beinlínis gegn ákveðnum hópum ferðamanna.

Meðal þess sem ósátt er um er að lagt er til að búinn verði til ríkisgagnagrunnur yfir vegslóða. Verði lögin samþykkt verður bannað að keyra allar leiðir nema þær sem samþykktar hafa verið í gagnagrunninn. Þetta gæti hljómað vel í eyrum sumra, sem tæki til náttúruverndar. Raunin er hins vegar sú að þvert á móti vinnur þessi grunnur gegn náttúruvernd.

Það er fullkomlega óraunhæft að allar leiðir sem farnar hafa verið rati inn í grunninn. Það eitt og sér takmarkar ferðalög fólks, því leiðir sem fólk hefur ekið árum eða áratugum saman verða túlkaðar sem utanvegaakstur, jafnvel þótt þar sé greinileg slóð. Samkvæmt lögunum má sekta eða gera ökutæki upptækt við slíkt athæfi fjölskyldu sem kannski er að fara að tjalda, fara í veiðiferð eða í berjamó. Því er refsað fyrir það að ferðast, en ekki fyrir að valda landsspjöllum.

Þá er verið að þröngva fólki til að aka eftir sömu ríkisleiðunum, með auknu álagi á þær og þeirra nærumhverfi. Með auknu álagi er meiri hætta á náttúruskemmdum. Það virðist þó vera í lagi samkvæmt lögunum, því farið er eftir ríkisleiðinni. Getur það kannski verið að fólk muni samt aka leiðirnar án athugasemda yfirvalda og lagaákvæðin þannig verða marklaus?

Eða verður slóðalögga sett á laggirnar sem fylgist með öllu hálendinu, vetur sem sumar? Verða kannski settar myndavélar upp um allt hálendið til að fylgjast með fólki? Þetta er í alla staði vont ákvæði fyrir ferðafólk og náttúruna. Ákvæðið virðist frekar ætlað til stjórnunar og eftirlits en til náttúruverndar. Ég tel að í þessu samhengi ætti náttúran að njóta vafans og ákvæðið um ríkisgagnagrunninn að fara út.

Hættum nú eftirlits- og forsjárhyggjunni, tökum frekar höndum saman um að vinna regluverk sem við getum sameinast um, sem gefur okkur frelsi til að ferðast en felur okkur jafnframt ábyrgð til að ganga vel um landið okkar. Hjálpumst að við að uppfræða landa okkar og gesti um skynsamlega umgengni á ferðalögum og njótum landsins okkar í sátt og samlyndi. Á ferdafrelsi.is er nú í gangi undirskriftasöfnun til að mótmæla þessu frumvarpi. Ég hvet almenning til að kynna sér það sem þar kemur fram og skrifa undir ef hann er ósáttur. Ég hvet einnig þingmenn til að hafna frumvarpinu eins og það er, svo hægt sé að vinna að nýju frumvarpi í sátt við þjóðina.




Skoðun

Sjá meira


×