Skoðun

Mjúklegur akstur er málið

Steindór Steinþórsson skrifar
Nú standa yfir öryggisdagar Strætó bs. og VÍS. Öryggisdagarnir ná yfir sex vikur og eru haldnir til að vekja vagnstjóra til umhugsunar hvað mikilvægt er að sýna öryggi í umferðinni. Það á ekki síst við um að aka mjúklega.

Mikill kostnaður getur fylgt tjónum og slysum hvort sem er á eignum eða fólki, að ekki sé minnst á þá vanlíðan sem slys geta valdið þeim sem í þeim lenda. Kostnaður vegna slysa á fólki getur verið umtalsverður og nægir oft að vagn hemli snögglega af einhverjum orsökum og farþegi sem ekki er því viðbúinn getur slasast illa.

Starf strætóbílstjóra er mjög krefjandi og er að mörgu að hyggja hvort sem það er utan vagns, það er að segja í umferðinni, eða inni í vagninum sjálfum. Lykilatriði í því að fækka tjónum er að aka mjúklega. Það dregur úr hættunni á því að slys verði á fólki, auk þess sem það gerir strætóferðina mun ánægjulegri.



Tjónum á ökutækjum þar sem strætisvagn á í hlut hefur fækkað verulega síðustu árin. Sem dæmi má nefna að allt árið 2006 voru skráð um 360 slík tjón, sem er um eitt tjón á dag. Árið 2010 voru skráð 157 tjón, 2011 urðu þau 82 og í fyrra voru einungis skráð 72 tjón. Það að ná slysum úr 360 í 72 á örfáum árum er algjör viðsnúningur og í raun hugarfarsbreyting sem við sem störfum hjá Strætó erum afar stolt af. Framangreindar tölur eru bæði hvort sem vagn er í rétti eða órétti.

Af þessu má ráða að með því að vekja fólk til umhugsunar um kostnað tjóna og slysa og nauðsyn þess að aka með varúð og vera ætíð á „vaktinni“ gagnvart öðru samferðafólki í umferðinni virkar, og að sjálfsögðu setjum við öryggið framar öllu hvort sem er á öryggisdögum eða utan þeirra.




Skoðun

Sjá meira


×