Innlent

Hafa borað 500 metra

Haraldur Guðmundsson skrifar
Göngin hafa lengst um 60 metra á viku frá því sprengingar hófust í byrjun júlí. Á myndinni sjást starfsmenn Ásafls hlaða 700 kílógrömmum af sprengiefni í holur í berginu.
Göngin hafa lengst um 60 metra á viku frá því sprengingar hófust í byrjun júlí. Á myndinni sjást starfsmenn Ásafls hlaða 700 kílógrömmum af sprengiefni í holur í berginu. Myndir/Auðunn Níelsson
„Við vorum að rjúfa 500 metra múrinn og hér gengur allt samkvæmt áætlun,“ segir Jón Leví Hilmars­son, verkefnisstjóri hjá Íslenskum aðalverktökum, sem stýrir vinnu við framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng í Eyjafirði.

Rúmir tveir mánuðir eru liðnir síðan sprengingar hófust og hafa göngin lengst um 60 metra á viku. Hver sprenging lengir göngin um fimm metra að meðaltali. Jón segir aðstæður í fjallinu góðar.

„Bergið er gott og það er lítið sem ekkert vatn. Við erum með starfsmenn á vöktum allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, og hingað til hefur þetta gengið án áfalla.“

Undirbúningsvinna er nú hafin Fnjóskadalsmegin. Að sögn Jóns er gert ráð fyrir að vinna þar hefjist næsta vor. 

Vaðlaheiðargöng verða fullkláruð 7,2 kílómetrar að lengd og stefnt er að gegnumbroti í september 2015.

Fyrir utan göngin má sjá gult loftræstirör sem nær inn öll göngin. Það hefur þann tilgang að blása inn hreinu lofti þegar búið er að sprengja og tryggja loftgæði.
Borinn sem notaður er við vinnuna er tengdur við rafmagns- og vatnsleiðslur sem liggja hér inn eftir göngunum.
Starfsmenn Ósafls hlaða sprengiefni í holur í berginu. Oftast er sprengt tvisvar á sólarhring og hver sprenging lengir göngin um fimm metra að meðaltali.
Jón Leví Hilmarsson, verkefnisstjóri hjá ÍAV, sem stýrir vinnu við framkvæmdirnar, stendur hér við hliðina á bornum sem notaður er. Borinn er af gerðinni Tamrock.
Starfs­maður Ósafls keyrir vinnulyftu út úr göngunum. Fyrir ofan má sjá loftræsti­rörið sem nær inn öll göngin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×