Innlent

Sjónvarpsefni í gegnum 4G um allt land

Þorgils Jónsson skrifar
Fjögur fyrirtæki áttu hæstu boð í uppboði Póst- og fjarskiptastofnunar á tíðnisviðum fyrir 4G-þjónustu.
Fjögur fyrirtæki áttu hæstu boð í uppboði Póst- og fjarskiptastofnunar á tíðnisviðum fyrir 4G-þjónustu.
Fjögur fyrirtæki fengu úthlutað tíðnisviði í uppboði Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) á tíðniheimildum fyrir 4G-farnetsþjónustu. Um er að ræða Símann, Fjarskipti (Vodafone) og Nova, auk 365 miðla sem gefa meðal annars út Fréttablaðið. PFS á enn eftir að afgreiða tilboðin endanlega en ef fram fer sem horfir munu fást 226 milljónir fyrir heimildirnar.

365 buðu samtals 120 milljónir í sínar tvær heimildir en að sögn Ara Edwald forstjóra er þessi innreið fyrirtækisins á fjarskiptamarkaðinn hluti af framtíðarsýn fyrirtækisins í sjónvarpsdreifingu.

„Þetta snýst einfaldlega um aðgengi viðskiptavina 365 að fyrsta flokks gagnvirkni og afþreyingu í bestu mögulegu gæðum hvar sem þeir eru staddir. Alls staðar áttu að hafa aðgang að háhraðaneti til að geta notið afþreyingar frá 365,“ segir Stefán H. Hilmarsson, framkvæmdastjóri rekstrar- og fjármálasviðs 365.

Úthlutuninni fylgja þær kvaðir að 365 skulu byggja upp farnet sem nær til 99,5% íbúa á hverju svæði fyrir lok árs 2016 og skal það þá bjóða upp á 10 Mb/s gagnaflutningshraða.

Nova hefur verið með tilraunaleyfi á rekstri 4G-þjónustu en í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að þjónustan verði byggð upp í áföngum, fyrst á höfuðborgarsvæðinu og svo verði fleiri svæðum bætt við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×