Innlent

"Púlsinn fer hækkandi"

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stefán Einar Stefánsson
Stefán Einar Stefánsson
„Púlsinn fer hækkandi. Ég get vottað það. Eðlilega, annars væri ekkert gaman að þessu," segir Stefán Einar Stefánsson, formaður VR.

Einn og hálfur tími var eftir af kosningu þegar Vísir heyrði hljóðið í formanninum sem sækist eftir endurkjöri. Í framboði er einnig Ólafía B. Rafnsdóttir.

Um 20 prósent félagsmanna höfðu greitt atkvæði fyrir stundu.

„Það er svona með besta móti hjá okkur. Þetta slagar í svipað og best hefur gerst. Það er jákvætt ef þessi tvö starfsár uppbyggingar hafa komið því til leiðar að fólk sé áhugasamara um félagið sitt," segir Stefán Einar.

Stefán Einar hvetur fólk til þess að nýta atkvæðarétt sin á síðustu metrunum. Þá hvetur hann önnur stéttarfélög til þess að haga kosningum sínum líkt og VR.

„Það væri sómi af því að önnur stéttarfélög þorðu að gera hið sama. Það eru ekki mörg félög sem standa í svona stórræðum á hverju einasta ári. Menn gleyma því líka að við kjósum helming stjórnarinnar árið á móti."

Stefán Einar var ekki tilbúinn að svara því hvort hann væri bjartsýnn eða svartsýnn. Kosningu lýkur klukkan tólf á hádegi og verða úrslitin tilkynnt klukkan 14.

„Maður setur bara upp póker face. Svo tekur maður því sem verða vill," segir formaðurinn. „Það er engin leið að gera sér grein fyrir því hvernig þessi atkvæði munu falla."


Tengdar fréttir

Um 20% hafa kosið - Kosningu lýkur í dag

Allsherjaratkvæðagreiðslu til formanns og stjórnar VR fyrir kjörtímabilið 2013 - 2015 lýkur klukkan tólf á hádegi í dag. Klukkan hálftíu í morgun höfðu 5.790 félagsmenn greitt atkvæði af þeim 29.439, sem eru á kjörskrá. Það þýðir að kosningaþátttakan er um 20%. Tveir eru í framboði til formanns, þau Stefán Einar Stefánsson, núverandi formaður, og Ólafía B. Rafnsdóttir, sem meðal annars hefur verið kosningastjóri Árna Páls Árnasonar og starfsmannastjóri 365 miðla.

"Ég er mjög bjartsýn"

"Hljóðið er bara mjög gott. Þetta er bjartur og fallegur dagur. Það verður bara ánægjulegt að fá að heyra niðurstöðurnar á eftir," segir Ólafía B. Rafnsdóttir sem býður sig fram til formanns VR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×