Innlent

Vilja tölvuleikjafólk til Noregs

Nemi við myndvinnslu.
Nemi við myndvinnslu. Mynd/Heimasíða háskólans
Fulltrúar Háskólans í Norður-Þrændalögum í Mið-Noregi eru á Íslandi þessa dagana með það að markmiði að fá efnilega íslenska nemendur í nám í tölvuleikjahönnun og margmiðlunartækni.

Helga Sigurðardóttir, doktorsnemi í faginu, segir að forsvarsmönnum námsleiðanna hafi borist til eyrna að ekki væri boðið upp á sams konar nám á háskólastigi á Íslandi. Þrátt fyrir það væri margt hæfileikaríkt fólk á þessum sviðum á Íslandi.

Báðar námsbrautirnar eru þriggja ára BA-nám sem stenst alþjóðlegar gæðakröfur og veitir brautskráðum kandídötum reynslu og réttindi til að starfa í þessum ört vaxandi starfsgreinum. Annars vegar er um að ræða hönnun og þróun tölvuleikja og sköpun margmiðlunarefnis hins vegar.

Fagfólkið við háskólann býr einnig yfir mikilli fagþekkingu og reynslu. Segir Helga meðal fastráðinna kennara vera Bandaríkjamanninn Greg Curda sem hefur áralanga reynslu af hljóðvinnslu Hollywood-kvikmynda. Teymi hans vann Óskarsverðlaun fyrir framlag sitt til myndarinnar The Hunt For Red October árið 1991.

Fulltrúar háskólans munu heimsækja framhaldsskóla á Stór-Reykjavíkursvæðinu, auk þess sem haldnir verða opnir kynningarfundir um námið fimmtudaginn 21. mars, kl. 20.00 og 21.00 í fundarsal Centerhotel Plaza við Aðalstræti í Reykjavík.

Facebook-síðu háskólans, sem er á íslensku, má sjá hér. Frekari upplýsingar um námið má finna á heimasíðu háskólans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×