Innlent

Reyndi tólf ára að svipta sig lífi

Eftir að maðurinn leitaði sér hjálpar hjá SASA-samtökunum sá hann lífið í nýju ljósi. Hann segir nauðsynlegt að snúa umræðunni að afleiðingum kynferðisofbeldis en ekki hvernig beri að refsa gerendum.
Eftir að maðurinn leitaði sér hjálpar hjá SASA-samtökunum sá hann lífið í nýju ljósi. Hann segir nauðsynlegt að snúa umræðunni að afleiðingum kynferðisofbeldis en ekki hvernig beri að refsa gerendum. Fréttablaðið/Stefán
„Ég var fyrst misnotaður þegar ég var fimm ára gamall. Karl Vignir tók mig upp í bílinn sinn í miðborg Reykjavíkur og keyrði með mig burt,“ segir 48 ára gamall karlmaður sem þurfti að þola gróft, kynferðislegt ofbeldi alla sína barnæsku af hendi þriggja mismunandi gerenda; tveggja karla og einnar konu. Maðurinn vill ekki koma fram undir nafni til að hlífa börnum sínum við sögu sinni.

Karl Vignir Þorsteinsson, sem hefur játað á sig fjölda kynferðisbrota og situr nú í varðhaldi, varð aftur á vegi hans tveimur árum síðar.

Lögreglan gerði ekkert

„Það gerðist aftur þegar ég var sjö ára. Ég man lítið eftir þessu annað en að ég fór upp í hvíta Volkswagen-bjöllu, þar sem hann þuklaði á mér. Hann fór víða karlinn. En ég sagði frá í seinna skiptið vegna þess að yngri bróðir minn lenti líka í honum. Þá var farið til lögreglunnar og þar var talað um að ég hefði vitað að hann væri að þessu en ég hefði ekkert gert til að stoppa hann. Bara samtal við lögreglu og svo ekkert meira. En án þess að ég sé að afsaka neitt þá eru bara breyttir tímar í dag og þarna kunni fólk bara ekkert að taka á svona löguðu.“

Þegar maðurinn var á áttunda aldursári var hann sendur í sveit yfir sumartímann. Þar var hann beittur grófu og ítrekuðu kynferðisofbeldi af hálfu fullorðins frænda síns, öll sumur þar til hann varð þrettán ára. Hann sagði engum frá misnotkuninni.

Nauðgað á hverju sumri

„Frændi minn nauðgaði mér og misnotaði á allan hátt. Ég hef ekki tölu á hversu oft það gerðist, enda var þetta svona á hverju sumri, nóttu sem degi. Samt grunaði engan neitt. Ástæða þess að ég sagði ekki frá var fyrst og fremst skömmin, en svo á einhvern hátt verður hið óeðlilega eðlilegt í svona aðstæðum,“ segir hann.

Móðir mannsins var mikill alkóhólisti og sinnti honum lítið. Hann útskýrir að börn sem koma frá brotnum heimilum séu oft ekki nægilega sterk til að kljást við erfiðleika sem ofbeldi hefur í för með sér. „Maður leitar að samþykki og viðurkenningu og þessi frændi minn var maður sem ég leit upp til.“

Frændinn misnotaði bróður mannsins líka. Þegar það ofbeldi hófst var drengurinn fimm ára og frændinn þrítugur. Frændinn er enn á lífi en hefur ekki haft samskipti við bræðurna eftir að þeir fullorðnuðust. Þegar ormagryfjan tók að opnast, mörgum árum síðar, voru ofbeldisverkin borin undir frændann. Svörin sem hann gaf eru þekkt réttlæting barnaníðinga; Börnin vildu þetta.  „Ég hitti aldrei frænda minn í dag. Enda á ég mér líf,“ segir hann.

Misnotaður af nágrannakonu

Þegar maðurinn var ellefu ára hófst kynferðisleg misnotkun af hálfu þriðja geranda á hans stuttu ævi. Nágranni drengsins, tæplega þrítug kona sem bjó í sama húsi, byrjaði að tæla hann til sín, gefa honum vín og beita hann ofbeldi.

„Þá fannst mér eins og ég væri að taka ábyrgð á þessu því ég fékk áhuga því hún var kona. Svo vegna þess sem á undan var gengið hélt ég að svona væri bara eðlilegt. Hún fór að bjóða mér í heimsókn, gaf mér vín, lét mig sinna sér og stunda með sér kynlíf. Svo flutti hún í burtu og þá hætti þetta,“ segir hann.

„Ég bjó með mömmu og hún drakk mikið á þessum tíma. Hún bauð til dæmis frænda mínum úr sveitinni alltaf að gista hjá okkur og þá hélt hann áfram uppteknum hætti. En ég sagði henni aldrei neitt.“

Sjálfsvígstilraun tólf ára gamall

Kynferðisbrotin tóku enda þegar maðurinn var þrettán ára. En hann átti eftir að upplifa að afleiðingarnar voru vart komnar í ljós. Hann tók inn lyf tólf ára gamall til að svipta sig lífi en var færður á spítala þar sem var dælt upp úr honum.

„Ég var með ítrekaðar hugsanir um dauðann. Ég sem er á móti dauðarefsingum var samt búinn að dæma sjálfan mig til dauða margoft. En það var svo sem ekkert gert í því. Ég lá á sjúkrahúsi í nokkra daga og svo var ekkert spáð í það meir. Svona ofbeldi litar allt líf manns. Ítrekaður kvíði, ótti, hræðsla við höfnun. Afleiðingar virðast vera endalausar.“

Ofbeldið býr til úrvalshermenn

Manninum gekk illa í skóla svo hann einbeitti sér að íþróttaiðkun og erfiðisvinnu.

„Mér gekk alltaf vel í vinnu og var aldrei lengi á vinnustað án þess að vera settur í ábyrgðarstöður. En tilfinningalífið var í rúst. Maður fór áfram á hnefanum og lokaði á allt. Sumir segja að þolendur kynferðisofbeldis séu úrvalshermenn og mér finnst mikið til í því.“

Hann hefur átt í tveimur langtímasamböndum við konur sem fóru bæði í vaskinn. Hann heldur þó sambandi við börnin sín en segir það oft ekki hafa verið auðvelt. „Þetta fylgir manni alltaf. Ég náði ekki að tengjast neinum vegna þess að ég var ekki í sambandi við mínar eigin tilfinningar. Maður verður flóttamaður í eigin líkama,“ segir hann. „Ég man svo vel eftir því þegar geðlæknir sagði við mig að þolendur kynferðisofbeldis yrðu sjálfir gerendur, sem er auðvitað bara mýta. En það varð til þess að ofbeldið sem maður varð fyrir tvöfaldaðist í raun og gerði að verkum að það var ekki hægt að stíga fram og segja sögu sína.“

Sagði ekkert í þrjátíu ár

Nú, meira en þrjátíu árum síðar, hefur maðurinn stundað tólf spora kerfi SASA-samtakanna (sexual abuse survivors anonymous) í sex ár. Hann hefur kynnst fjölda fólks sem hefur upplifað sömu vítiskvalir og hann, heyrt sögur og rætt við sérfræðinga.

„Ég var kominn í þrot. Og þarna fékk óvinurinn loksins nafn og andlit. Það er ótrúleg lækning sem felst í því að hitta annað fólk sem hefur lent í sömu reynslu og maður sjálfur.“

Fregnir af Karli Vigni tóku á

Hann hefur ekki íhugað að leggja fram kæru í ljósi þess að málin séu augljóslega fyrnd.

„Ef ég myndi hvað konan heitir væri ég svo sem alveg til í að kæra hana. Það þarf virkilega að opna umræðuna um að konur séu líka gerendur. Það er síðasta og mesta tabúið af öllu.“

Hann segist hafa orðið þreyttur í janúar þegar umfjöllun fjölmiðla um Karl Vigni, fyrsta ofbeldismann hans, komst í hámæli. „Ég hlustaði mikið á músík og varð andlega þreyttur. Þetta tekur rosalega á. En þegar maður er kominn með andlit á óvininn er auðveldara að díla við þetta, því það er liður í ferlinu að jafna sig aftur.“

Manngerðar hamfarir

Maðurinn segir það hafa komið sér á óvart hversu gríðarlegur fjöldi fólks hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi sem barn.

„En fólk vill ekki tala um þetta. Það koma hér snjóflóð sem taka líf fólks, sem er skelfilegt, en kynferðisofbeldi gegn börnum er ekkert annað en manngerðar hamfarir,“ segir hann. „En ég vil ekki nota svona frasa eins og sálarmorð eða rústuð líf. Ég er með sál og mér líður bara alveg hreint ágætlega. En það þarf að viðurkenna þetta fyrir öðrum og horfast í augu við sjálfan sig. Það er lykillinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×