Innlent

"Ég er mjög bjartsýn"

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafía B. Rafnsdóttir
Ólafía B. Rafnsdóttir Mynd/Valli
„Hljóðið er bara mjög gott. Þetta er bjartur og fallegur dagur. Það verður bara ánægjulegt að fá að heyra niðurstöðurnar á eftir," segir Ólafía B. Rafnsdóttir sem býður sig fram til formanns VR.

Ólafía býður sig fram gegn sitjandi formanni Stefáni Einari Stefánssyni sem gegnt hefur starfinu undanfarin tvö ár. Ólafía hefur haft gaman af kosningabaráttunni.

„Við höfum starfað fyrst og fremst með gleðina að leiðarljósi alla kosningabaráttuna. Það hefur verið afskaplega ánægjulegt að fá tækifæri til að hitta alla þessa VR félaga á vinnustöðum síðustu daga," segir Ólafía. Hún segist finna fyrir miklum áhuga hjá félögum og heimsóknirnar á vinnustaðina séu henni dýrmætar.

Kosningaþátttaka var um 20 prósent fyrir stundu. Aðspurð hvað lesa megi í tölurnar segir Ólafía:

„Ef þú skoðar tölur frá því fyrir tveimur árum þegar sitjandi formaður var kosinn voru 4600 sem tóku þátt. Hann fékk 977 atkvæði en það voru reyndar fleiri í framboði til formanns þá en nú. Með mínu framboði hef ég vonandi vakið meiri áhuga hjá félagsmönnum. Eitt af mínum markmiðum var að auka þátttökuna. Hún verður að vera góð hjá stéttarfélagi VR. Það er nú þegar komið," segir Ólafía.

Kosningu lýkur klukkan tólf og úrslitin verða tilkynnt klukkan tvö.

„Ég er mjög bjartsýn. Það hefur verið svo gaman að taka þátt í þessu. Ég er svo stolt og ég finn bara jákvæða strauma og þar viljum við vera."


Tengdar fréttir

Um 20% hafa kosið - Kosningu lýkur í dag

Allsherjaratkvæðagreiðslu til formanns og stjórnar VR fyrir kjörtímabilið 2013 - 2015 lýkur klukkan tólf á hádegi í dag. Klukkan hálftíu í morgun höfðu 5.790 félagsmenn greitt atkvæði af þeim 29.439, sem eru á kjörskrá. Það þýðir að kosningaþátttakan er um 20%. Tveir eru í framboði til formanns, þau Stefán Einar Stefánsson, núverandi formaður, og Ólafía B. Rafnsdóttir, sem meðal annars hefur verið kosningastjóri Árna Páls Árnasonar og starfsmannastjóri 365 miðla.

"Púlsinn fer hækkandi"

"Púlsinn fer hækkandi. Ég get vottað það. Eðlilega, annars væri ekkert gaman að þessu," segir Stefán Einar Stefánsson, formaður VR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×