Innlent

Perlan fær steypireyði sem Húsavík stólaði á

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Þannig sjá hvalasafnsmenn fyrir sér steypireyðina af Skaga í nýrri byggingu á Húsavík. Beinagrindin er 25 metra löng og fjórir metrar á hæð. Myndir/Hvalasafnið Húsavík
Þannig sjá hvalasafnsmenn fyrir sér steypireyðina af Skaga í nýrri byggingu á Húsavík. Beinagrindin er 25 metra löng og fjórir metrar á hæð. Myndir/Hvalasafnið Húsavík
Afar fágæt beinagrind úr steypireyði sem rak á land við Ásbúðir á Skaga sumarið 2010 er nú orðin bitbein Hvalasafnsins á Húsavík og Náttúruminjasafnsins í Perlunni.

„Við höfum búið okkur til ákveðna sérstöðu í þessum efnum og teljum eðlilegt að þessi grind komi hingað,“ segir Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings, þar sem bæjarráðið skoraði á síðasta fundi á Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem æðsta yfirmann safnamála í landinu, að lýsa því yfir að beinagrindin yrði sett upp á Húsavík. Ekki náðist tal af Katrínu í gær.

Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar, sem á steypireyðina og er að verka beinin, segir þau mjög merkileg og að aðalatriðið sé að þau verði til sýnis fyrir almenning. Bæði Hvalasafnið á Húsavík og Náttúruminjasafn Íslands, sem fengið hafi 500 milljónir frá ríkinu til að búa til sýningu í Perlunni, vilji fá hvalinn.

„Okkur er svo sem sama hvar hún er, svo framarlega sem hún er til sýnis. Ef Náttúruminjasafnið vill fá hvalinn í sína grunnsýningu um náttúru Íslands þá munum við láta hann fara þangað. Ef ekki þá eru Húsvíkingarnir næstir í röðinni,“ segir Jón Gunnar og bendir á að dýrt sé að setja beinagrindina upp. „Þar verður ekkert tjaldað til einnar nætur. „Ef við setjum hana upp í Perlunni verður hún þar í að minnsta kosti tíu til tuttugu ár.“

Hvalasafnið og félagið Garðarshólmi eru í samstarfi um uppbyggingu safna-, menningar- og fræðastarfsemi á lóð Hvalasafnsins á Húsavík. Beinagrindinni af steypireyðinni er ætlað að verða krúnudjásnið í verkefninu og frumdrög að húsi yfir hana eru tilbúin.

Einar Gíslason, framkvæmdastjóri Hvalasafnsins, segir að frá því að steypireyðina rak á land hafi Hvalasafnið, með vitund og vilja mennta- og menningarmálaráðuneytisins, unnið að því að fá grindina norður.

„Að fá slíka segla inn á svæðið styrkir auðvitað það yfirlýsta markmið ríkisstjórnarinnar að dreifa ferðamönnum meira um landið. Þessi beinagrind á auðvitað ekkert heima í Perlunni heldur hér í höfuðborg hvalaskoðunar í Evrópu,“ segir framkvæmdastjóri Hvalasafnsins.

Hvalreki á Skaga. Steypireyðurin við Ásbúðir var engin smásmíð. Mynd/Valur Örn Þorvaldsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×