Innlent

Þarf að finna hentugt skip fyrir Landeyjahöfn

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Landeyjahöfn var opnuð við hátíðlega athöfn árið 2010 en það hefur alltaf legið fyrir að Herjólfur henti ekki fyrir höfnina.
Landeyjahöfn var opnuð við hátíðlega athöfn árið 2010 en það hefur alltaf legið fyrir að Herjólfur henti ekki fyrir höfnina. Mynd / Vilhelm Gunnarsson
Baldur mun ekki sigla á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar en sýnt hefur verið fram á að Baldur gæti siglt um 70 fleiri daga en Herjólfur yfir vetrartímann.

Undanfarin ár hefur bæjarráð Vestmannaeyja reynt að finna skip sem hentar betur til siglinga á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja. Baldur getur siglt í 3,3 metra ölduhæð en Herjólfur aðeins í 2,5 metra ölduhæð. Baldur hefur þó ekki haffærnisleyfi til að sigla á þessu tiltekna hafsvæði.

Þegar Landeyjahöfn var tekin í notkun árið 2010 var vitað að Herjólfur hentaði ekki fyrir höfnina og hefur alla tíð staðið til að fá annað skip. Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að sá fjöldi daga, sem Herjólfur getur ekki siglt yfir vetrartímann eða þurfi að fara um Þorlákshöfn, sé óviðunandi.

„Frátafir vegna ölduhæðar verða 30 til 40 prósent á tímabilinu nóvember til mars þegar siglt er á Herjólfi. Væri siglt á skipi sem réði við 3,5 metra ölduhæð færu heildarfrátafir niður í 15 til 20 prósent og tiltölulega fáir heilir dagar myndu falla út.“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir þjóðhagslega hagkvæmt að finna hentugra skip en Herjólf til að sigla á milli Eyja og Landeyjahafnar.aðsend mynd
Elliði segir þjóðhagslega hagkvæmt að finna hentugra skip. Það komu að meðaltali 120 þúsund manns á ári með Herjólfi frá Þorlákshöfn en frá Landeyjahöfn komu 300 þúsund manns til Eyja í fyrra. Einnig kostar hver dagur sem sigla þarf til Þorlákshafnar í stað Landeyjarhafnar milljón krónum meira.

„Vestmannaeyjaferja hefur aldrei orðið eins gömul og Herjólfur er orðinn nú. Skipið er líka hannað til að sigla í Þorlákshöfn, það er of djúprist fyrir Landeyjahöfn og ræður þar að auki ekki við næga ölduhæð,“ segir Elliði.

Að sögn Elliða er styttri siglingarleið hagkvæm fyrir atvinnulífið og ferðamennsku og bætir lífsskilyrði í Eyjum.

Í fundargerð bæjarráðs Vestmannaeyja er harmað að Baldur fái ekki undanþágu til siglinga. Þar sem fullreynt sé að finna heppilegt skip til siglinga í Landeyjahöfn og fyrir liggi að allar stórvægilegar breytingar á höfninni séu fjarri, hvetji bæjarráð innanríkisráðherra til að ráðast strax í útboð á nýrri ferju til siglinga í Landeyjahöfn. Sú ferja þurfi að bera fleiri bíla en Herjólfur, ráða við að lágmarki 3,5 metra ölduhæð og vera búin til siglinga í Þorlákshöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×