Innlent

Færri ráðherrar Framsóknar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Mynd / Stefán

Sjálfstæðisflokkurinn fær fimm ráðherra og Framsóknarflokkurinn fjóra í nýrri ríkisstjórn. Ekki verður skipaður sérstakur umhverfisráðherra. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verður forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.

Sjálfstæðisflokkur fær forseta Alþingis. Stjórnarsamstarfið var samþykkt samhljóða á fundum flokksstjórnar Sjálfstæðisflokksins og miðstjórnar Framsóknarflokksins í gærkvöldi.

Verkefnum velferðarráðuneytisins verður skipt á milli félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra. Þá verður verkefnum atvinnuvegaráðuneytisins skipt á milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem einnig fer með orkumál og málefni ferðaþjónustunnar.

Sigmundur Davíð segir að verkaskipting ráðuneytanna sé ekki endanleg. Vinna muni fara í gang við uppskiptingu eða sameiningu þeirra. Ráðherratalan geti því breyst.

„Ég á frekar von á því, þegar allt er um garð gengið og komið endanlegt skipulag á þetta, að við verðum með fimm ráðherra þegar búið er að fara í gegnum þessa vinnu sameiningar eða uppskipti.“

Umhverfismálin verða fyrsta kastið undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Bjarni segir, varðandi ráðherraskiptingu, að hann hafi gert ráð fyrir því að Framsóknarflokkurinn skipaði fjóra ráðherra í þær stöður sem hann fékk í hlut sinn. Hann var ánægður með viðtökurnar á fundinum í gær.

„Við kynnum stefnuyfirlýsinguna fyrir hádegi á morgun [í dag]. Síðan nota ég daginn til að hitta þá þingmenn sem ég á eftir að ræða við og legg mína tillögu fram við þingflokkinn um kvöld.“

Þingflokkar stjórnarflokkanna funda báðir í kvöld og líklegt er að fyrsti ríkisráðsfundur nýrrar ríkisstjórnar verði á morgun. Heimildir Fréttablaðsins herma að mikil áhersla sé lögð á atvinnuuppbyggingu í stjórnarsáttmálanum, en ekki sé kveðið á um einstök stórverkefni.

Þá mun línu flokkanna úr kosningabaráttunni fylgt varðandi aðildarviðræður við Evrópusambandið, að gert verði hlé á þeim og þeim ekki haldið áfram fyrr en að undangenginni samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki mun þó kveðið á um hvenær slík atkvæðagreiðsla skuli fara fram.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×