Innlent

„Hann er mjög hræddur“

Erla Hlynsdóttir skrifar
Davíð Örn Bjarnason, sem hefur verið í varðhaldi í Tyrklandi síðan á föstudag, hefur verið látinn laus. Unnusta hans segir hann mjög óttasleginn eftir fangelsisvistina. Davíð er í farbanni og óvíst er hvenær mál hans verður tekið fyrir.

Davíð var handtekinn á flugvellinum í Antalya og honum gefið að sök að hafa ætlað að smygla fornminjum úr landi. Davíð sagðist við yfirheyrslu ekki hafa vitað að hann væri að gera nokkuð ólöglegt. Fulltrúi utanríkisráðuneytisins fór út í gærkvöldi og tilkynnt var í morgun um lausn Davíðs.

Utanríkisráðherra segist litlar upplýsingar hafa fengið um heilsufar Davíðs eða meðferðina á honum í fangelsinu.

„Ekki get ég nú sagt það annað en að við vildum að hann færi í læknisskoðun þegar hann kom í hendur okkar manns, en þetta er víkingur og vaskleikamenni og hann taldi ekki þörf á því sjálfur og er svona miðað við aðstæður, að sögn okkar manns og hans sjálfs, í þokkalegri stöðu. En þetta var honum auðvitað erfitt."

Þóra Björg Birgisdóttir, unnusta Davíðs og barnsmóðir, fékk símtal frá honum í dag. Hún er að vonum ánægð með að hann er laus.

Hvernig er hljóðið í honum?

„Það er bara ekki nógu gott," segir hún.

Hvernig talar hann um vistina þarna?

„Ekki vel. Það er mikil spilling í gangi og margt í gangi sem, eins og staðan er í dag, má ekki tala um. Þegar hann kemur heim er hægt að upplýsa fólk um hvað var virkilega í gangi.

Af hverju má ekki tala um það núna?

„Bara til að koma honum ekki í meiri vandræði."

Þannig að hann er hræddur?

„Hann er mjög hræddur. Mjög hræddur," segir Þóra.

Sem stendur dvelur hann á hóteli ásamt fulltrúa utanríkisráðuneytisins. Íslendingar í Tyrklandi hafa boðið honum húsaskjól og á næstu dögum verður honum fundinn dvalarstaður til 25. apríl, þegar farbanni verður aflétt.

En Þóra hefur áhyggjur af Davíð.

„Hann er auðvitað feginn að vera laus úr þessu helvíti. En það er mikið eftir. Þetta er ekkert búið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×