Innlent

Litlu munaði að olíuskip og loðnuskip lentu í árekstri undan Reykjanesinu

Minnstu munaði að 29 þúsund tonna erlent olíuskip og íslenskt loðnuskip lentu í árekstri norður af Garðskaga á Reykjanesi snemma í gærmorgun, en skipstjóra olíuskipsins tókst að sveigja hjá loðnuskipinu og fara í þröngan hring aftur fyrir það.

Þetta var á skýrt aðskildum siglingaleiðum fyrir Reykjanesið og reyndi erlendi skipstjórinn fyrst að kalla loðnuskipið upp, en fékk ekki svar. Þá hafði hann samband við stjórnstöð Gæslunnar, sem reyndi að kalla skipstjóra loðnuskipsins upp á neyðarrásinni 16, en hann svaraði ekki heldur þar.

Greip skipstjóri olíuskipsins þá til sinna ráða og afstýrði árekstri. Skipið var sem betur fer tómt á útleið, en ef það hefði verið fulllestað olíu og bensíni, hefði það verið mun seinna í svifum, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×