Skoðun

Ferðin til framtíðar

Oddný Sturludóttir skrifar

Sjónvarpsþátturinn Tossarnir hefur skapað mikla umræðu um brotthvarf og þá sóun sem í því felst að ungt fólk flosnar upp úr námi. Mér finnst freistandi að tengja menntun barna í heild sinni við þá umræðu og hvet til þess að fyrsta skólastigið, leikskólinn, gleymist ekki. Þar á metnaður okkar að vera jafn mikill og í grunn- og framhaldsskólum því í leikskólanum eru mikil tækifæri til að treysta grunn barna í frumþáttum skapandi starfs, læsis, mál- og félagsþroska.

Á leikskólaárunum læra börn að stjórna tilfinningum sínum, hegðun og athygli og hvernig til tekst getur haft mikil áhrif á hvernig þeim gengur að takast á við verkefni sín síðar á menntabrautinni.

Stóra leikskóladeginum er fagnað í Reykjavík í dag. Uppskera vetrarins er kynnt í Ráðhúsi og Tjarnarbíói og hún er ekki rýr. Leikskólastarf í Reykjavík er á heimsmælikvarða og jarðvegur leikskólans fyrir fyrstu skref barna á menntabrautinni er dásamlega frjór. Síðustu misserin hefur skilningur á mikilvægi leikskólastigsins í þróun læsis aukist mikið á alþjóðlegum vettvangi. Í Reykjavík er mikil gerjun og ekki minnkaði hún með nýjum aðalnámskrám þar sem einn af grunnþáttunum er læsi í víðum skilningi. Athyglisverðar eru niðurstöður rannsóknar dr. Hrafnhildar Ragnarsdóttur, Freyju Birgisdóttur og Steinunnar Gestsdóttur, sem greinarhöfundur hafði forgöngu um að styrkja árið 2007. Rannsóknin varpar ljósi á tengsl málþroska leikskólabarna við þróun læsis og framfarir nemenda í námi síðar meir.

Nú er verið að ljúka við gerð fyrstu læsisstefnu reykvískra leikskóla. Leikskólinn hefur lengi unnið með læsið með fjölbreyttum aðferðum. Markmið nýrrar læsisstefnu er að byggja ofan á það starf og stuðla að markvissri vinnu með helstu grunnstoðir lestrarnáms; málskilning, málvitund, viðhorf til lesturs og orðaforða. Með því getur leikskólinn gripið fyrr þau börn sem líkleg eru til að eiga í erfiðleikum með nám og stutt við þau. Þannig geti þau átt jafn góð tækifæri og önnur börn í námi til framtíðar. Besta veganestið fyrir skólagönguna er að þessar grunnstoðir læsis, sem eru að mótast á leikskólaárunum, séu sem sterkastar. Yfirskrift Stóra leikskóladagsins er „Ferðin til framtíðar“ og hún á vel við. Það ferðalag hefst í leikskólanum.




Skoðun

Sjá meira


×