Skoðun

Útlit. Innlit

Pétur Gunnarsson skrifar

Ég átti þess kost að heimsækja Helsinki á dögunum. Mikið sem það er áreynslulaus borg, samræmisfull með stílhreinum hverfum og höfn sem dregur að sér mannfjölda með markaðstorgi, ferjum í háhýsastærð og minnibátaferðum út í eyjarnar. Athygli vakti hvað umferð bíla um borgina er strjál, minnti á Reykjavík kringum 1970. Það skýrist væntanlega af hinu öfluga almenningssamgangnaneti: strætisvagnar, sporvagnar og lestar eru stöðugt og jafnt að anna erindagjörðum fólksins. Vorið var nýútsprungið í sumar og svipmót manna passaði engan veginn við staðalmyndina um hinn þungbúna Finna.

Mesta athygli vakti þó hvað borgin var ýkt snyrtileg. Hvar sem á hana var litið. Hvergi sást svo mikið sem snifsi af rusli á víðavangi og nálgaðist óraunveruleika á útihátíð sem við vorum viðstödd. Hanami heitir sú upp á japönsku, en það virðist vera einhver leyniþráður á milli Japana og Finna. Mér skildist að hér væri verið að fagna blómgun kirsuberjatrésins, mikill mannfjöldi sat flötum beinum á víðáttustórri grasflöt og maulaði nestið sitt, en fyrir endanum var upphækkað svið þar sem japanskar geisjur stigu þokkafullan dans og plokkuðu strengi. Að samkomu lokinni reis fólkið á fætur og þá brá svo við að ekki var svo mikið sem ein krumpuð servétta eftir skilin, allur úrgangur hafði ratað í snyrtilega svarta kassa á stangli innan um mannfjöldann. Sama var raunar uppi á teningnum á torgflæminu framan við aðalbrautarstöðina. Já, hvert sem litið var!

Sálarkröm

Kannski þess vegna sem viðbrigðin voru svo mikil að koma heim til Reykjavíkur. Að líta öll þau ógrynni af rusli sem borgarbúar megna að kasta frá sér á víðavangi og vindurinn sér um að hengja í tré og runna og bólstra með girðingar. En í skotum hlaðast upp haugar sem geta náð meðalmanni í mitti. Hvaða eiginlega sálarkröm býr hér að baki? Þetta nær þeim hæðum að slær eiginlega yfir í ofbeldisverknað. Hvaða innibyrgða reiði fær hér útrás?

Íslendingar eru þjóð sem sjaldan eða aldrei gefst tækifæri til að líta í spegil. Áhrifamesti fjölmiðillinn beinir helst aldrei myndavélinni að umhverfi okkar. Og maður sem hefði aldrei litið í spegil, hvernig liti hann eiginlega út? Einstaklingur sem hefði aldrei fengið viðmót, sem enginn hefði brugðist við, hvernig væri komið fyrir honum?

Oft og iðulega er talað um „þjóðirnar sem við viljum bera okkur saman við“. En hvernig væri að bera okkur saman við þessar þjóðir? Láta útsendara okkar í höfuðborgum Norðurlanda gera úttektir á þessum stöðum og við hér heima bera jafnóðum saman við það sem tíðkast okkar á meðal. Vetur sumar vor og haust.

Fyrir fram leyfi ég mér að fullyrða að engin þjóð á byggðu bóli norðan Alpa sýni sjálfri sér jafn djúprætta lítilsvirðingu og Íslendingar þegar kemur að umgengni. Við svo búið má ekki standa. Við hljótum að þurfa að taka okkur tak.




Skoðun

Sjá meira


×