Innlent

Fá greitt fyrir óunna yfirvinnu og bílapeningar ofgreiddir

Heimir Már Pétursson skrifar
Halldór Halldórsson er óánægður með launamun kynjanna hjá sveitarfélögunum.
Halldór Halldórsson er óánægður með launamun kynjanna hjá sveitarfélögunum. Mynd/GVA
Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir launamun kynjanna hjá sveitarfélögunum óþolandi. Það séu væntanlega ákvarðanir yfirmanna hjá sveitarfélögunum sem skapi launamuninn og því verði að breyta. 

Samkvæmt könnunum samtaka launafólks er launamunur karla og kvenna mestur hjá sveitarfélögunum. Halldór Halldórssson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sagði í þættinum á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að þetta væri því miður staðreynd.

„Það er alveg með ólíkindum að hann skuli vera til staðar eftir alla þá vinnu  og alla þá baráttu sem búið er að leggja í. Maður skilur það bara ekki. Stjórnendur verða að líta sér nær í þessum efnum. Einhverjir ákveða það og taka þær ákvarðanir sem verða til þess að þessi launamunur kemur fram,“ sagði Halldór.

Þetta séu væntanlega ákvarðanir um bílapeninga sem karlar fái frekar greidda en konur og jafnvel fasta yfirvinnu. Hann hafi hvatt sveitarfélögin til að skoða þetta í sínum launakerfum beint og laga þetta.

Í sumum tilfellum sé um að ræða greiðslur fyrir óunna yfirvinnu og bílapeningar greiddir fyrir meiri akstur en í raun er ekinn.

„Mér sýnist að eins og til dæmis hjá Reykjavíkurborg að þá eigi að fara þá leið að skera niður yfirvinnu og svoleiðis. Það þýðir það að karlar munu lækka í launum. Ef ég skil þetta rétt.“

„Það er samt sem áður að það er ekki skynsamlegt að fara í miklar launahækkanir á alla línuna núna. Það er bara ekki skynsamlegt. Því að ef það yrði farið í miklar launahækkanir núna á alla línuna þá búum við til verðbólgu sem étur það upp og rúmlega það,“ fullyrti Halldór í Sprengisandinum í morgun. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×