Innlent

Skilyrði fyrir eignarnámi ekki uppfyllt

Ásgerður Ragnarsdóttir
Ásgerður Ragnarsdóttir
Eigendur jarða á Reykjanesi sem Landsnet hefur farið fram á að verði teknar eignarnámi furða sig á kröfunni. Landeigendur telja samninga ekki fullreynda en þeir hafa krafist þess að línan verði jarðstrengur en ekki loftlína.

Landeigendur á Reykjanesi furða sig á eignarnámskröfu sem Landsnet hefur sett fram vegna ráðgerðra framkvæmda við háspennulínu á svæðinu. Þá telja þeir skilyrði fyrir eignarnámi ekki uppfyllt.

„Þetta kemur í fyrsta lagi verulega á óvart. Landeigendur hafa talið að samningaviðræður standi enn yfir en eitt af grundvallarskilyrðum þess að eignarnám sé krafist er að samningar hafi verið reyndir til þrautar. Við teljum þetta skilyrði ekki uppfyllt sem og reyndar fleiri,“ segir Ásgerður Ragnarsdóttir, sem er lögmaður landeigendanna ásamt Karli Axelssyni.

Þá segir Ásgerður einkennilegt að farið sé fram á eignarnám áður en tilskilin framkvæmdaleyfi frá Orkustofnun og sveitarfélögum liggja fyrir.

Forsaga málsins er sú að Landsnet fór í gær fram á að tiltekin landsvæði á Reykjanesi yrðu tekin eignarnámi. Telur fyrirtækið sig ekki geta tryggt raforkuöryggi á Reykjanesi án línunnar og að samningar við nokkra landeigendur hafi siglt í strand.

Landsnet hefur þegar náð samningum við eigendur 11 af 20 jörðum á svæðinu og þá standa samningar enn þá yfir við eigendur tveggja jarða. Ásgerður segir hina landeigendurna einhuga í þessari deilu og bætir við að þeir muni mótmæla eignarnámsbeiðninni.

Ásgerður segir að deilan hafi meðal annars staðið um það hvort nýja línan verði loftlína eða jarðstrengur en landeigendur telja síðari kostinn hagkvæmari þegar á allt sé litið.magnusl@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×