Viðskipti innlent

Hlutur í Landsvirkjun seldur of lágu verði

Kolbeinn Óttarsson Proppe skrifar
Ríkið keypti hlut borgarinnar í Landsvirkjun fyrir 27 milljarða árið 2007. Skilmálar skuldabréfs, sem var hluti söluhagnaðar borgarinnar, auka nú á lífeyrisskuldbindingar borgarinnar. fréttablaðið/vilhelm
Ríkið keypti hlut borgarinnar í Landsvirkjun fyrir 27 milljarða árið 2007. Skilmálar skuldabréfs, sem var hluti söluhagnaðar borgarinnar, auka nú á lífeyrisskuldbindingar borgarinnar. fréttablaðið/vilhelm
Kaupverð ríkisins á 46 prósenta hlut í Landsvirkjun árið 2006 var allt of lágt. Þetta fullyrðir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs. Í skýrslu úttektarnefndar á stjórnsýslu og stjórnkerfi Reykjavíkurborgar, sem kynnt var í gær, eru rök færð fyrir hinu sama.

„Þegar horft er um öxl er hins vegar eðlilegt að spurt sé hvort það verð sem um samdist hafi verið rétt í ljósi þróunar ytri og innri aðstæðna eftir að samningar voru gerðir og fyrirtækið býr nú við,“ segir í skýrslunni.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þáverandi borgarstjóri, og Árni M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, sömdu um kaup ríkisins á 46 prósenta hlut í Landsvirkjun árið 2006 fyrir 27 milljarða króna. Hluti andvirðisins, þrír milljarðar, var greiddur í reiðufé, en afgangurinn, 24 milljarðar króna, í skuldabréfi sem lagt var inn hjá Lífeyrissjóði starfsmanna Reykjavíkur.

Úttektarnefndin, en í henni sátu Sigurður Þórðarson, Ásdís Hlökk Theodórsdóttir og Sesselja Árnadóttir, segir að óumdeilt sé að orkuverð í heiminum muni hækka og eftirspurn stórkaupenda sé mikil. Útlit sé fyrir að heildararðsemi Landsvirkjunar muni aukast og þar með verðmat þess.

Dagur bendir á að Landsvirkjun eigi í dag í kringum 200 milljarða króna í eiginfé og það án þess að eigandinn, ríkið, hafi lagt því til nokkurt fé. „Í staðinn fyrir að borgarsjóður væri að fá arðgreiðslur af hlut sínum og ábyrgðargjald vegna eigna sinna og skuldbindinga í Landsvirkjun á hverju einasta ári, þá er verið að borga með skuldabréfinu sem borgin tók sem greiðslu.“ Þar vísar hann í skilmála bréfsins sem sagt er frá hér fyrir ofan.

Úttektarnefndin segir að gangi framkvæmdir Landsvirkjunar fram í samræmi við spár og áætlanir megi ætla að „orkusamningar við væntanlega kaupendur verði því aðeins gerðir að þeir skili ekki lakari arðsemi en núverandi samningar“. Engin endurskoðunarákvæði séu í sölusamningnum nema tengd sölu ríkisins á fyrirtækinu, komi til hennar, og spyrja megi „hvort fleiri atriði hefðu ekki átt að gefa tilefni til endurmats“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×