Formúla 1

Hamilton með frábæran sigur og þann fyrsta á tímabilinu

Stefán Hirst Friðriksson skrifar
Lewis Hamilton sem ekur fyrir Mercedes vann í dag sinn fyrsta sigur á tímabilinu í Formúlu 1 kappakstrinum sem fór fram í Búdapest. Hamilton var kampakátur í viðtali eftir sigurinn og sagðist hann hafi komið sér á óvart.

„Þetta er ótrúleg tilfinning. Við höfðum ekki mikla trú á þessu fyrir kappaksturinn en ég verð að hrósa liðinu mínu fyrir frábæra vinnu. Ég var mjög hungraður í þennan sigur og mér fannst það sjást á akstrinum hjá mér í dag. Nú ætla ég bara að halda áfram og vinna fleiri mót," sagði Lewis Hamilton eftir kappaksturinn í dag.

Hamilton var á ráspól fyrir kappaksturinn í dag og hélt hann forystunni allan tímann og sigraði með nokkrum yfirburðum. Finninn Kimi Raikkonen sem ekur fyrir Lotus kom annar í mark eftir mikla baráttu við heimsmeistarann Sebastian Vettel sem endaði í þriðja sæti.

Heimsmeistarinn Vettel er ennþá efstur í heildar stigakeppninni en Raikkonen er annar. Fernando Alonso er í þriðja sæti og Lewis Hamilton í því fjórða. Red Bull, sem Vettel ekur fyrir er með góða forystu í liðakeppninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×