Innlent

Sló dyravörð í andlitið

Fjórir voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu í nótt, þar af einn grunaður undir áhrifum fíkniefna og var sá sviptur ökuréttindum.

Laust fyrir klukkan þrjú í nótt var tilkynnt um líkamsárás á skemmtistað við Laugaveg. Þar var kona færð í varðhald grunuð um að hafa slegið dyravörð í andlitið. Konan var verulega ölvuð og verður yfirheyrð þegar runnið er af henni.

Þá tilkynnt um konu sem hafði runnið á svelli fyrir utan skemmtistað í Austurstræti klukkan fjögur í nótt. Var hún talin handleggsbrotin og flutt af lögreglu á slysadeild.

Á Akureyri gistu tveir menn fangageymslur sökum ölvunarástands, en að sögn varðstjóra rötuðu þeir ekki heim til sín. Þeir eru því frjálsir ferða sinna þegar þeir vakna. Á Egilstöðum fór fram dansleikur í gærkvöld  og allt skemmtanahald í bænum fór vel fram.  þó var eitthvað um minniháttar pústra, en lögregla þurfti þó aldrei að skerast í leika.

Einn var tekinn grunaður um ölvun við akstur í lögregluumdæmi Selfoss. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×