Lífið

Michelle Pfeiffer var í sértrúarsöfnuði

Michelle Pfeiffer
Michelle Pfeiffer AFP/NordicPhotos
Michelle Pfeiffer viðurkenndi í viðtali við The Sunday Telegraph að hún hefði verið í sértrúarsöfnuði áður en hún öðlaðist heimsfrægð sem leikkona.

Pfeiffer, sem er 55 ára gömul, segir í viðtalinu að hún hafi ung kynnst pari sem hafi verið mjög stjórnsamt. Þau aðhylltust stefnu sem nefnist á ensku breatharianism, en þeir sem stunda slíkt trúa því að í gegnum hugleiðslu sé hægt að komast í ástand þar sem fólk geti lifað á loftinu og sólarljósinu einu saman.

„Þau unnu með þyngdir og settu fólk á strangt mataræði. Grænmetisfæði,“ segir Pfeiffer.

„Þau voru mjög stjórnsöm. Ég bjó ekki hjá þeim en ég var þar mikið og þau voru sífellt að segja mér að ég þyrfti að koma oftar. Ég þurfti að borga fyrir allan tímann sem ég var þarna, og þetta varð mjög dýrt. Þau trúðu því að það eina rétta væri að aðhyllast þessa stefnu,“ segir Pfeiffer í viðtalinu.

Leikkonan segir jafnframt að henni hafi verið bjargað af fyrrverandi eiginmanni sínum Peter Horton, sem var að vinna að kvikmynd um the Moonies, sem aðhylltust stefnu hins suður-kóreska Sun Myung Moon.

Pfeiffer aðstoðaði Horton við að undirbúa sig fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni og þurfti þar með að afla sér þekkingar um sértrúarsöfnuði. Þá segist hún hafa uppgötvað að hún var sjálf í einum slíkum.

Pfeiffer hefur tileinkað sér vegan-mataræði í seinni tíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.