Skoðun

Hverjum treystir þú út í beljandi elginn?

Lára Óskarsdóttir skrifar
Hoppar þú út í straumharða á fyrir hvern sem er? Þessari spurningu var varpað til okkar nemenda í félagssálfræðikúrs í HÍ fyrir nokkrum árum. Manneskja fellur út í straumharða á. Hvað gerir þú? Flestir svöruðu; hoppa út í að sjálfsögðu! Við erum að tala um lífshættulega á, áréttaði prófessorinn. Það sló þögn á hópinn, pínulítið skömmustulegri þögn. Prófessorinn hélt áfram: Ef við stæðum á bakkanum og okkar eigið barn dytti í ána? Nú var ekkert hik á mönnum, allir sögðust stinga sér án umhugsunar. Þessu svari virtist prófessorinn ekki geta hnekkt. Við stökkvum út í eftir okkar eigin fólki, það er óvefengjanlegt.

Þessar vangaveltur komu upp í huga mér eftir að hafa hlustað á umræður í Silfri Egils þann 3. febrúar. Þar kom m.a. fram að næstu ríkisstjórnar biði líklega eitt það erfiðasta sem nokkur íslensk ríkisstjórn hefði tekist á við. Þetta er líklega ekki fjarri sanni. Við lifum á viðsjárverðum tímum og það mun reyna á þá sem veljast á þing. Eins og þann sem stendur á árbakka og horfir á eftir annarri manneskju í elginn.

Við kjósendur þurfum að spyrja okkur sjálfa: Hverjir munu þora út í beljandi elginn? Hverjir munu hefja málefnið hærra en sjálft sig? Hverjir munu þora að gera mistök? Hverjir munu þora að viðurkenna mistök? Hverjir munu læra af mistökum? Hverjir geta unnið málefnalega með ólíkum aðilum við björgunarstörfin? Við kjósendur munum ekki þola annað kjörtímabil þar sem málefnin rekur lífvana niður ána. Við munum ekki þola neinn rolugang. Þor og ákveðni með árangur að leiðarljósi er það eina sem þessi vinnusama þjóð á skilið. Við megum ekki gleyma að börnin okkar leika sér við árbakkann.

Ég set mitt traust á frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins. Ég er þess fullviss hvaðan af landinu sem þeir koma, muni þeir vinna málefnalega með sér ólíku fólki. Ég treysti því að þeir hefji þjóðþrifamál yfir sjálf sig. Ég treysti því að þeir stingi sér út í beljandi elginn og tryggi okkur Íslendingum farsæla framtíð.




Skoðun

Sjá meira


×