Erlent

Geta brotist inn í tölvukerfi bíla á ferð

Brjánn Jónasson skrifar
Enn sem komið er er það aðeins á færi sérfræðinga að brjótast þráðlaust inn í tölvukerfi bíla á ferð, en framtíðarsýnin vekur bílaframleiðendum ugg.
Enn sem komið er er það aðeins á færi sérfræðinga að brjótast þráðlaust inn í tölvukerfi bíla á ferð, en framtíðarsýnin vekur bílaframleiðendum ugg. Fréttablaðið/Stefán

Tölvuhakkarar hafa sýnt fram á að hægt er að brjótast inn í tölvukerfi nýlegra bíla þráðlaust og láta þá beygja, bremsa, drepa á sér og margt fleira án þess að ökumaður bílsins fái neitt við ráðið.

Tilgangur hakkaranna er að fá bílaframleiðendur til að gæta að öryggi tölvukerfa bílanna, enda sífelt stærri hluti af virkni bílanna tengdur tölvukerfum þeirra. Í nýlegum bílum eru á bilinu 20 til 70 samtengdar tölvur. Þær stýra til dæmis bremsum, gírkassa og stýri, en einnig minna mikilvægum hlutum bílsins eins og rúðum, ljósum og rúðuþurrkum.

Í nýlegri skýrslu sem tveir tölvunarfræðingar gáfu út sýna þeir fram á hvernig þeir tóku stjórn á Toyota Prius og Ford Escape á ferð. Þeir fengu meðal annars styrk frá bandarískum stjórnvöldum til að rannsaka veikleika bíla. Í skýrslunni skýra þeir eingöngu hvernig þeir brutust inn í tölvukerfin í gegnum aðgang sem bifvélavirkjar nota til að tengjast tölvukerfum bílanna, en ekki hvernig hægt er að gera árásir þráðlaust.

„Því tæknivæddari sem bílarnir eru því fleiri tækifæru eru fyrir óprúttna aðila til að nýta sér það,“ segir Rich Mogull, forstjóri bandaríska öryggisfyrirtækisins Securosis. „Ef það er tölva í tækinu er veikleiki til staðar.“

Tölvunarfræðingar hafa sýnt fram á að hægt er að hakka tölvukerfi bíla á ferð, og taka yfir stjórn mikilvægra kerfa í bílnum. „Við hefðum getað aftengt bremsurnar. Við hefðum getað drepið á vélinni. Við hefðum getað nauðhemlað,“ segir Stefan Savage, tölvunarfræðiprófessor við Kaliforníuháskóla.

„Það er augljóst að það er hægt að nota þessa tækni til að drepa fólk,“ segir John Bumgarner, framkvæmdastjóri tæknideildar hjá Cyber Consequencer Unit, sem eru samtök sem vinna að netöryggi, í samtali við Reuters-fréttaveituna.

Þessi veikleiki nýlegra bíla vekur bílaframleiðendum ugg, og er fjöldi starfsmanna hjá stærstu bílaframleiðendunum að vinna að því að bæta öryggi tölvukerfa bílanna.

Ekki hefur enn fréttst af því að tölvuárásir hafi verið gerðar á bíla af öðrum en þeim sem vinna að því að sýna fram á veikleika bílanna, og þeir telja sjálfir að tæknin sé enn sem komið er ekki á færi annarra en sérfræðinga sem eru tilbúnir að leggja mikla vinnu í verkefnið.

Bílaþjófar taka tæknina í sína þjónustu

Sú þekking og tækni sem þarf til að hakka sig þráðlaust inn í tölvukerfi bíla á ferð er enn sem komið er á fárra færi, og litlar líkur á því að það verði algengt á næstunni.

Stefan Savage, tölvunarfræðiprófessor við Kaliforníuháskóla, telur líklegra að bílaþjófar nýti sér það að tölvur stýra sífelt meiru í bílum til að auðvelda sér að brjótast inn í bílana og koma þeim í gang. Það sé ekki jafn flókið að opna bíla þráðlaust og gangsetja svo bílinn með því að hakka tölvuna í gegnum aðgang sem bifvélavirkjar nýta sér til að tengjast tölvunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×