Skoðun

89% er ekki nóg

Bjarni Gíslason skrifar
„Hér er maður á 53 sem hugsar ekki um börnin í Afríku, neyð annarra skiptir hann engu máli,“ kallar drengur í gjallarhorn á tröppum manns sem hikar við að gefa pening í fötu sem hann réttir að honum, „ætlarðu að gefa núna?“ spyr drengurinn og gefur í skyn að hann geti alveg kallað meira yfir hverfið. Nei, svona stendur maður ekki að söfnun, enda er þessi sena í fræðslumyndbandi til fermingarbarna til að sýna hvernig á EKKI að hegða sér og þau hvött til að sýna kurteisi og hegða sér vel.

Fermingarbörn um allt land horfa á bráðskemmtileg myndbönd um hvernig á að fara að (og ekki) þegar þau ganga í hús um allt land og safna fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar. Það munu þau gera 4.-7. og 11.-12. nóvember næstkomandi.

Þessi myndbönd er hægt að sjá á heimasíðu Hjálparstarfsins help.is. Þetta er í 15. sinn sem fermingarbörn standa fyrir söfnun til vatnsverkefna Hjálparstarfsins í Úganda, Malaví og Eþíópíu. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um framgang þúsaldarmarkmiðanna, sem kom út í júní 2012, kemur fram að 1990 höfðu 76% jarðarbúa aðgang að hreinu vatni en árið 2010 var hlutfallið komið í 89%.

Þetta er frábær árangur en gleymum því ekki að jarðarbúar eru 7 milljarðar. 11% sem ekki hafa aðgang að hreinu vatni eru 770 milljónir manna. Staðreynd sem fermingarbörn hafa verið frædd um og þau vilja gera sitt til að bæta ástandið, segja að 89% sé ekki nóg.

Handgrafinn brunnur kostar um 180.000 krónur. Brunnur sem gefur hreint, tært vatn gjörbreytir aðstæðum til hins betra. Með brunninum kemur fræðsla um smitleiðir sjúkdóma og mikilvægi hreinlætis. Bætt hreinlætisaðstaða dregur mjög úr sjúkdómum og dauðsföllum vegna þeirra. Þegar nóg vatn er til staðar er hægt að hefja geita- og hænsnarækt og rækta grænmetisgarða með fjölbreyttari tegundir grænmetis. Þannig verður vatnið grundvöllur betri afkomu og betri heilsu.

Tökum vel á móti fermingarbörnunum þegar þau banka upp á, hrósum þeim fyrir dugnaðinn og fyrir að taka til sinna ráða og leggjum fram það sem við getum.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×