Viðskipti innlent

20 milljarðar inn í þjóðarbúið með hærra aflamarki

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Fréttablaðið/GVA
Miðað við núverandi verðforsendur gæti verðmæti þeirrar hækkunar á aflaheimildum fyrir fiskveiðiárið sem hófst í gær numið tuttugu milljörðum, segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

„Mér sýnist það, svona fljótt á litið,“ segir Þorsteinn. „Það hefði í för með sér um eins prósents aukningu á landsframleiðslu.“

Alls er úthlutað 381.431 tonni í þorskígildum talið. Sé aflamark síðasta árs reiknað út í þorskígildum nýhafins fiskveiðiárs er munurinn á milli áranna tæplega 33 þúsund tonn. Í peningum gæti munurinn hins vegar verið um tuttugu milljarðar.

Fjórtán þúsund tonnum er bætt við aflamarkið í þorski og er heildaraflamarkið fyrir þetta fiskveiðiár um 171 þúsund tonn. Einnig hækkar aflamark í karfa, ufsa og síld.

Þorsteinn segir þetta geta boðað betri tíð í þjóðarbúskapnum. „Ekki veitir af enda hefur heldur verið að hægja á hagvexti á undanförnum misserum og horfur fram undan nokkuð óljósar,“ segir hann.

„Ef stjórnvöldum tekst að aflétta þeirri óvissu sem einkennt hefur rekstrarumhverfi sjávarútvegs undanfarin ár vegna óvissu um framtíðarfyrirkomulag fiskveiðistjórnunar sem og stóraukinnar skattbyrði greinarinnar þá má einnig reikna með því að fjárfestingar aukist nokkuð í sjávarútvegi á nýjan leik. Slíkt myndi einnig hafa afar jákvæð áhrif á hagvöxt enda fjárfestingar verið hættulega litlar hér á landi undangengin fimm ár.“

Hæsta hlutfall aflamarksins í ár kemur í hlut HB Granda eða rúm ellefu prósent. Samherji kemur næst með tæp sjö prósent og svo Þorbjörn í Grindavík með fimm og hálft prósent. Þetta er sama sætaröðun og í fyrra. Mestu verður landað í Reykjavíkurhöfn, því næst Vestmannaeyjum og svo Grindavík

Þótt flest sé með hefðbundnu sniði ber einnig á nýlundu við þessa úthlutun en nú er í fyrsta sinn úthlutað þremur nýjum tegundum, blálöngu, gulllaxi og litla karfa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×