Skoðun

Hræðslan við gleðina

Einn ástsælasti fjölmiðlamaður Íslands, Hemmi Gunn, er fallinn frá eins og alþjóð veit. Nú var ég eins og meirihluti þjóðarinnar ein af þeim sem vissu vissulega hver maðurinn var. Í áratugi naut ég þess að horfa og hlusta á hann á skjánum og í útvarpi, gefa frá sér þessa einlægu gleði og hlýju sem einkenndi hann. Hemmi skildi eftir sig heila þjóð sem fyllist af gleði og brosi þegar hún hugsar til hans. Einlægni hans og opinská umræða um þær hindranir sem hann tókst á við gerði það einnig að verkum að við treystum því og höfðum fullan skilning á því að Hemmi gat bæði flogið hátt og fallið hratt.

Mér fannst áhugavert að sjá og heyra vini Hemma segja frá lífi hans og störfum í bæði í sjónvarpi og útvarpi. Eitt af því sem ég tók eftir var að margir töluðu um að; „Þrátt fyrir gleðina var Hemmi var mjög vel gefinn maður!“

Þessi sérstaka fullyrðing fékk mig til að hugsa; hvenær tókum við þá ákvörðun að segja að fólk sem hefur hina náttúrulegu gleði í hjartanu sé einhverra hluta vegna ekki vel gefið? Þá langar mig einnig til að finna þann „frumkvöðul“ sem gaf út þá yfirlýsingu að ekki skyldi taka mark á fólki sem hefði náttúrulega hæfileika til að gefa af sér gleði og hamingju.

Þegar þetta er skrifað hafa hundruð Íslendinga menntað sig og þjálfað sérstaklega til að hjálpa fólki til að finna gleðina, hamingjuna í lífinu með aðferðafræði eins og markþjálfun og jákvæðri sálfræði. Við lesum daglega um niðurstöður rannsókna sem sýna að það skiptir fólki mun meira máli að hafa skýran tilgang í lífi og starfi, en hærri laun eða önnur hlunnindi. Fólk þarf í dag sérstaka aðstoð sérfræðinga til að finna gleðina og hamingjuna í lífinu, og jafnvel þeir sem hafa þennan náttúrulega hæfileika eru hræddir við að sýna hann, hræddir við að fá það orðspor að vera vitlausir vegna þess að gleðin er þeirra sterka hlið.

Dagurinn sem við förum að samþykkja fólk, hæfileika þess og getu án þess að athuga hvaða stafróf er á bak við nafnið þess inni á Linkedin er dagurinn sem við förum sem þjóð að efla og njóta hvers annars til fulls. Verum hvert öðru hvatning til góðra verka, hleypum gleðinni inn!




Skoðun

Sjá meira


×