Viðskipti innlent

Kaupa, kaupa, kaupa!

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Slitastjórn á fundi. Fulltrúar vogunarsjóða fengu nýjustu upplýsingar um stöðu búsins og þurftu að hafa hraðar hendur ef þeir vildu kaupa fleiri kröfur.
Slitastjórn á fundi. Fulltrúar vogunarsjóða fengu nýjustu upplýsingar um stöðu búsins og þurftu að hafa hraðar hendur ef þeir vildu kaupa fleiri kröfur. Fréttablaðið/Pjetur
Mínútur geta skipt sköpum um hvort menn hagnist ævintýralega á viðskiptum með kröfur á gjaldþrota fyrirtæki eða ekki. Skömmu eftir íslenska bankahrunið höfðu starfsmenn vogunarsjóða hraðar hendur þegar þeir áttuðu sig á því að endurheimtur í þrotabú íslensku bankanna yrðu ekki jafn vonlausar og útlit var fyrir í fyrstu.

Þessari atburðarás er lýst í nýrri bók blaðamannanna Magnúsar Halldórssonar og Þórðar Snæs Júlíussonar, Ísland ehf. – auðmenn og áhrif eftir hrun. Í bókinni er skyggnst á bak við tjöldin í íslensku viðskiptalífi eftir bankahrunið. Meðal annars er farið yfir það hverjir eru raunverulegir eigendur íslensku bankanna og hvaða persónur og leikendur koma við sögu hjá vogunarsjóðunum bandarísku sem keypt hafa skuldabréf þeirra.

Í bókinni er umfjöllun um það þegar Ísland fylltist allt af „útlendingum á jakkafötum“ rétt eftir að bankarnir féllu. Á fyrsta kröfuhafafundinum sem haldinn var hjá slitastjórn Glitnis seint á árinu 2008 var fjallað um greiðslustöðvun bankans og ferlið sem á eftir myndi fylgja.

Í bókinni segir: „Þar [á fundinum] fór einnig fram kynning á fjárhagsstöðu búsins sem sýndi að staðan var miklu betri en markaðurinn hafði sagt til um. Menn sem sátu fundinn segja að einn fulltrúi kröfuhafanna, sem vinnur fyrir stóra aðila í bandarískum fjármálaheimi, hafi greinilega orðið mjög spenntur yfir því sem hann sá.

Áður en kynningunni á fjárhagsstöðunni lauk gekk hann fram á gang á Hilton Nordica hótelinu, hringdi í sjóðinn sem hann vann fyrir og sagði kollegum sínum að kaupa, kaupa, kaupa,“ segir á síðu 31 í bókinni.



Philip Green lét öllum illum látum

Í bókinni er fróðleg frásögn af því sem gerðist bak við tjöldin rétt eftir fall bankanna. Meðal annars er rifjað upp að breski kaupsýslumaðurinn Philip Green kom hingað til lands helgina eftir setningu neyðarlaganna í október 2008 í þeim tilgangi að kaupa skuldir Baugs á lágu verði.

Með það fyrir augum mætti hann í höfuðstöðvar Glitnis á Kirkjusandi, sem hafði verið tekinn yfir af skilanefnd. Ingibjörg Pálmadóttir mun hafa farið með honum á fundinn en á meðan beið Jón Ásgeir Jóhannesson frammi, en Jón Ásgeir og fjölskylda hans voru aðaleigendur Baugs á þessum tíma.

Í bókinni segir: „Á fundinum lagði Green fram tilboð um að kaupa allar skuldir Baugs við bankann á um fimm prósent af virði þeirra. Þegar tilboðið fékk litlar undirtektir lét hann öllum illum látum og hótaði að allir sem væru inni í herberginu yrðu reknir. Hann gæti látið það gerast. Hann hótaði einnig að tala við forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, ef tilboðið yrði ekki skoðað betur. Hvað forsetinn átti að gera kom ekki fram.“ (Bls. 44-45)



Steingrímur skammaði bankastjóra Landsbankans

Vestia, eignarhaldsfélag Landsbankans, hélt utan um margar verðmætustu eignir bankans eins og Vodafone, Skýrr, Húsasmiðjuna og Plastprent. Salan á félaginu til Framtakssjóðs Íslands í lok ágúst 2010 varð tilefni gagnrýni, m.a. á síðum þessa blaðs, ekki síst fyrir þær sakir að söluferlið var aldrei auglýst og fór fram fyrir luktum dyrum.

Í bókinni segir að þetta hafi reitt þáverandi fjármálaráðherra mikið til reiði.

„Steingrímur J. Sigfússon varði þennan gjörning opinberlega en bak við luktar dyr varð hann gjörsamlega brjálaður yfir sameiningunni. Að hans mati fólst í henni klárt brot á reglum sem Landsbankinn hafði sjálfur sett sér um meðferð eigna sem lent höfðu í höndunum á bankanum eftir hrunið. Steingrími fannst þeir Steinþór [Pálsson bankastjóri] og Finnbogi [Jónsson] heldur ekki hafa vandað almennilega til verka. Í einkasamtölum hundskammaði hann þá báða og sagði þeim mjög skýrt að svona lagað skyldu þeir aldrei gera aftur.“ (Bls. 237-238)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×