Skoðun

Sipp og hoj; meira af leikskólamálum

Fanný Kristín Heimisdóttir skrifar
Ég hitti um helgina tvo félaga sem flúið hafa frá borði. Önnur gekk á vegg, brann út og sagði upp. Hún vinnur nú við vöruframleiðslu í litlu fyrirtæki og hún sagði sjálf: „Ég get lagt frá mér verkefnin stund og stund þó það sé alveg mikið að gera.“ Sem sagt minna álag og launin hennar eru líka hærri en í leikskóla.

Hún sagði að sér þætti samt slæmt að svona fór því hún var í leikskólastarfinu af lífi og sál, vissi að hún var flink og finnst starfið mikilvægt. Hún var árum saman í hópi sem hélt uppi starfi í leikskóla þar sem leikskólakennarar voru fáir en verkefnin flókin.

Hin söðlaði um og „fór í grunnskólann“ eins og það er orðað í geiranum. Hún er með áratuga reynslu sem leikskólakennari og leikskólastjóri, með framhaldsmenntun í stjórnun og sérstakan áhuga á læsi. Talið barst að löngu sumarfríi grunnskólans: „En við erum náttúrulega í skipulagsvinnu og símenntun hluta af þeim tíma. Síðastliðið sumar las ég t.d. nýju aðalnámskrána“.

Við megum helst ekki við því að missa leikskólakennara yfir í grunnskólann en eigum það á hættu vegna þess mismunar sem er á kjörum leikskólakennara og grunnskólakennara ekki síst hvað varðar tíma til undirbúnings starfsins með börnunum.

Leikskólinn er fyrsta skólastigið

Leikskólakennarar hafa sérstaka formlega menntun sem á að tryggja að þeir séu búnir til þess starfs sem þeir taka að sér. Þessu má líkja við að skipstjórar, stýrimenn og vélstjórar hafa sérstaka menntun sem er mikilvæg um borð í bát. Sjómenn sækja fisk á miðin og takast á við aðstæður þar sem menntun, reynsla, vélarafl og búnaður skiptir máli.

Menntun leikskólastarfsfólks má e.t.v. líkja við veiðarfæri; nám er félagslegt ferli, á sér stað í samskiptum og nám þess sem nemur er háð því hvernig kennarinn er búinn til starfs síns. Starfið í leikskólanum miðar að því að veita börnum möguleika til þroska og náms og uppeldishlutverki foreldra er deilt með þeim. Allt skólastarf miðar að því „að börnin læri veiðar og fái góðan fisk“.

Samkvæmt landslögum eiga tveir þriðju hlutar starfsfólks í leikskóla að hafa leikskólakennaramenntun en eftirfylgni með lögunum hefur ekki verið skilvirk. Í Reykjavík eru aðeins um 30% starfsfólks í leikskóla með leikskólakennaramenntun. Þeir kennarar dreifast þó ekki jafnt; bátarnir eru mismundandi búnir en hlutverk allra það sama. Hér þarf að bæta úr, dreifa kröftum og huga að jafnræði barnanna, þó við eigum lítið þurfum við samt að skipta jafnt.

Undirbúningstímar fyrir börnin

Í dag eru undirbúningstímar í leikskólum tengdir kjarasamningum starfsfólksins. Félagar í KÍ hafa undirbúningstíma en ekki þeir fjölmörgu sem eru í Eflingu. Afleysing til undirbúningsvinnu er í algjöru lágmarki þannig að þegar einn kennari fer í undirbúning eykst oft álagið á alla hina, líka börnin. Ung börn eru hæfir einstaklingar, eiga og þurfa að vera á eigin forsendum og hafa persónulegt svigrúm. Þegar við aukum sjálfræði barnanna er markmiðið að efla þau, ekki að hafa þau sjálfala því þau eiga rétt á fullorðnum sér við hlið. Aukið sjálfræði barna á því ekki að tengjast fólksfæð í leikskólunum.

Í grunnskólanum er undirbúningsvinna kennara að hluta til unnin á sumrin þegar börnin eru í sumarfríi. Kennararnir mæta þá að hausti og hafa sótt sér þekkingu um starfið sem vinna á með börnunum. Leikskólar starfa allt árið og þar þarf að viðurkenna að undirbúningstímar eru til þess að börnin fái það sem þeim ber. Auka þarf afleysingu vegna undirbúningstíma og viðurkenna með auknum kröftum að allt starfsfólk þarf að undirbúa sig til að takast á við starfið.

Þegnréttur barna

Það er viðvarandi vandi í leikskólum að gerðar eru kröfur án þess að hugað sé að kröftum til að uppfylla þær. Í mínum geira er oft sagt „að vilji sé allt sem þarf“ og sannarlega eru viðhorf til barna, náms og samvinnu grundvöllur í öllu skólastarfi. En „vilji er ekki allt sem þarf“. Það þarf að skilgreina betur þá krafta sem þarf til leikskólastarfs með það að markmiði að bæta og jafna uppvaxtarskilyrði barnanna. Það þarf að fjölga leikskólakennurum og dreifa þeim sem nú eru til.

Eina raunhæfa leiðin til þess er að hækka laun og bæta kjör, m.a. þarf að fjölga starfsfólkinu á gólfinu með börnunum. Það þarf að auka undirbúningstíma og miða þá við börnin sem eiga að njóta þeirra. Börnin eiga rétt á því besta og eru líka framtíðaráhöfnin okkar.




Skoðun

Sjá meira


×