Skoðun

Er hjúkrun aldraðra afgangsstærð?

Ólafur G. Skúlason skrifar
Það fór ekki fram hjá neinum þegar hjúkrunarfræðingar á Landspítala sögðu upp störfum síðastliðinn vetur og hrundu þannig af stað atburðarás sem olli því að þáverandi ríkisstjórn setti af stað jafnlaunaátak. Svo fór að hjúkrunarfræðingar sem vinna á stofnunum ríkisins fengu leiðrétt laun sín upp að vissu marki og var það vissulega fyrsta skrefið í rétta átt til þess að jafna launamun kynjanna.

Þessa leiðréttingu hafa hins vegar einungis fengið hjúkrunarfræðingar, og aðrar kvennastéttir í heilbrigðisþjónustu, sem starfa hjá ríkinu.

Nú er það svo að hjúkrunarfræðingar sem vinna á stofnunum sem tilheyra Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu sem flest hjúkrunarheimili tilheyra, hjá Reykjavíkurborg, sveitarfélögum og Reykjalundi hafa enga leiðréttingu fengið og er nú svo komið að verulegur launamunur hefur skapast á milli hjúkrunarfræðinga eftir því hver vinnuveitandi þeirra er. Mér þykir skrítið að ekki sé gengið alla leið í jafnlaunaátakinu þar sem flestar stofnanir þessara vinnuveitenda eru að miklu leyti fjármagnaðar af ríkinu þegar upp er staðið. Þar sem hjúkrunarfræðingar hjá ríkinu búa við betri kjör en aðrir hjúkrunarfræðingar veldur það því að ofangreindir vinnuveitendur eiga orðið erfitt með að fá hjúkrunarfræðinga til starfa. Við bætist að þeir sem nú þegar eru í starfi eru farnir að líta í kringum sig eftir betur launuðum stöðum og horfa þá til starfa á sjúkrahúsum.

Af þessu hef ég verulegar áhyggjur. Þjóðin eldist og stórir árgangar nálgast nú efri árin. Því er það mitt mat að aldrei hefur verið meiri þörf fyrir öfluga og faglega hjúkrun aldraðra en einmitt nú. Það yrði miður ef flótti hjúkrunarfræðinga úr öldrunargeiranum, endurhæfingu og heimahjúkrun yrði í raun. Við verðum að tryggja að gæði hjúkrunarþjónustu aldraðra á Íslandi sé til fyrirmyndar og næst það með vel menntuðum hjúkrunarfræðingum á sviði öldrunarhjúkrunar.

Nú liggja fyrir Alþingi fjáraukalög fyrir árið 2013 og hvet ég stjórnvöld þessa lands og þingmenn alla til að forgangsraða málunum þannig að hjúkrun (h)eldri borgara verði tryggð.




Skoðun

Sjá meira


×