Innlent

Misskilningur að þeir sem tali hægt, hugsi hægt

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
„Samfélagið verður að koma til móts þá sem eiga við talörðuleika að stríða.“ Þetta segir prestur sem nú tekst á við afleiðingar heilablóðfalls. Hann segir það gegnumgangandi misskilning í samfélaginu að þeir sem tali hægt, hugsi hægt.

Heilablóðfall er ein helsta orsök líkamlegrar fötlunar hjá fullorðnum og þriðja algengasta dánarorsök í hinum vestræna heimi. Heilablóð, eða slag, getur stafað af stíflaðri heilaslagæð eða þegar æð brestur í heilanum og það blæðir inn á heilavefinn. Meðferð byggist á endurhæfingu, líkamsþjálfun og iðjuþjálfun ásamt lyfjameðferð.

Um fjögur hundruð manns fá heilablóð á Íslandi árlega. Þessir einstaklingar verða oft ekki fyrir alvarlegum heilaskaða og halda rökhugsun. Þeir upplifa engu að síður félagslega einangrun með skertri hreyfigeta og talörðuleikum.

Baldur Kristjánsson, prestur, tilheyrir þessum hópi. Hann fékk heilablóðfall í febrúar síðastliðnum. Með undraverðum hætti og fyrir snarræði níu ára gamallar dóttur hans tókst að bjarga lífi hans. Greind Baldurs er ósködduð en hann glímir þó við talörðuleika. Hann skrifar um reynslu sína í Fréttablaðinu í dag og þá fordóma sem málhaltir upplifa. Baldur, fulltrúi hinna málhöltu, situr nú Kirkjuþing, þar sem menn taka einmitt til máls.

„Það er komið að þeim punkti hjá mér að annað hvort læt ég mér batna eða ekki. Annað hvort gref ég mig inni eða fer út. Það er ástæðan fyrir því að mér datt í hug að fara á Kirkjuþing, sem byggir einmitt á töluðu máli,“ segir Baldur.

„Það þarf ekki endilega að vera tenging milli þess að tala hægt eða ógreinilega og að vera með greindarskort.“ Vandamálið er tvíþætt. Fólk með talörðuleika þarf að taka af skarið og nota tjáningarleiðir sínar en það verkefni samfélagsins að koma til móts við þetta fólk.

„Um leið og maður byrjar að tala þá sér maður að fólk hugsar: ,Helvítis fáviti'. Manni dylst ekki að fólk kemur fram við mann eins og barn og byrjar að segja "vinur" eða "Baldur minn." Það er eins og með þá sem eru fatlaðir að það verður að koma til móts við þá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×