Viðskipti innlent

Vitnaleiðslumál Vilhjálms gegn Björgólfi heldur áfram

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Vilhjálmur Bjarnason og Björgólfur Thor Björgólfsson.
Vilhjálmur Bjarnason og Björgólfur Thor Björgólfsson.
Vitnaleiðslumál Vilhjálms Bjarnasonar gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni var tekið fyrir í dag.

Málið höfðaði Vilhjálmur til að leiða fram upplýsingar um eignarhlut Björgólfs í Landsbankanum fyrir hrun.

Málið hefur reynst þungt í rekstri þar sem vitni hafa ítrekað neitað að tjá sig og bera fyrir sig þagnarskyldu og trúnaði.

Í dag var tekist á um framlagningu tölvupóstar sem Birgir Már Ragnarsson, lögmaður og starfsmaður félagsins Samson, ritaði til Fjármálaeftirlitsins snemma árs 2007 þar sem tilkynnt var um breytingar á eignarhaldi Samson. Í yfirlýsingu frá Björgólfi frá árinu 2010, segir að í tölvupóstinum komi fram hverjir hluthafar Samson eru, þar á meðal að félag starfsmanna haldi á 5% hlut í Givenshire, sem átti hlut í Samson.

Lögmaður Vilhjálms krafðist þess í málflutningi sínum að Birgi verði gert skylt af dómara að leggja fram skjalið, enda hafi það verið nauðsynlegt til að hægt hefði verið að leggja mat á ársreikning Landsbankans.

Lögmaður Björgólfs bað dómara að hafna kröfu Vilhjálms og vísaði enn til trúnaðarskyldu.

Hæstiréttur hafði áður snúið við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og heimilað Vilhjálmi að taka skýrslur af vitnum vegna hugsanlegra málaferla á hendur Björgólfi Thor. Vilhjálmur vildi fá að leiða Björgólf Thor og sextán aðra nafngreinda einstaklinga fyrir dóm og taka af þeim skýrslur, en Hæstiréttur veitti heimild til að taka skýrslur af öllum einstaklingunum nema Björgólfi Thor sjálfum þar sem hann yrði aðili að málinu ef af stefnu verður.

Þá mun Björgólfur Guðmundsson, faðir Björgólfs Thor, ekki heldur þurfa að bera vitni í málinu, þar sem nákomnir ættingjar geta skorast undan því að bera vitni gegn þeim sem málshöfðun beinist gegn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×