Viðskipti innlent

Ríkið endurgreiði Vífilfelli 80 milljóna króna stjórnvaldssekt

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Vífilfell framleiðir meðal annars drykkinn vinsæla, Coca Cola.
Vífilfell framleiðir meðal annars drykkinn vinsæla, Coca Cola.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur snúið við úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála þess efnis að Vífilfell hafi brotið gegn samkeppnislögum og skal íslenska ríkið greiða Vífilfelli til baka 80 milljónir króna sem fyrirtækið hafði greitt í stjórnvaldssekt. Þetta staðfestir lögmaður Vífilfells.

Samkeppniseftirlitið hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að Vífilfell hefði brotið gegn ákvæðum um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu og gert fyrirtækinu að greiða 260 milljónir í stjórnvaldssekt.

Málið snerist um samninga Vífilfells við birgja þar sem viðsemjendur skuldbundu sig til að bjóða eingöngu upp á vörur frá Vífilfelli en auk þess skoðaði Samkeppniseftirlitið ákvæði samninga sem virtust viðhalda tryggð endursöluaðila við vörur fyrirtækisins.

Taldi Samkeppniseftirlitið að viðskiptasamningar Vífilfells hefðu að geyma ákvæði þar sem viðsemjendur fyrirtækisins skuldbundu sig til að tryggja Vífilfelli hillupláss, framsetningu og aðra stöðu sem virtist ætlað að viðhalda og styrkja markaðsráðandi stöðu fyrirtækisins. Í öðrum samningum skuldbundu viðsemjendur áfrýjanda sig til að bjóða eingöngu upp á vörur frá Vífilfelli og einhverjum ákvæðum var ætlað að viðhalda tryggð endursöluaðila við vörur fyrirtækisins.

Vífilfell kærði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar í samkeppnismálum sem staðfesti niðurstöðu eftirlitsins en lækkaði sekt Vífilfells í 80 milljónir.

Héraðsdómur hefur nú ógilt úrskurð áfrýjunarnefndarinnar og gert ríkinu að endurgreiða Vífilfelli fjárhæðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×