Viðskipti innlent

Vífilfell borgi 80 milljónir en ekki 260

Vífilfell framleiðir meðal annars drykkinn vinsæla, Coca Cola.
Vífilfell framleiðir meðal annars drykkinn vinsæla, Coca Cola.
Áfrýjunarnefnd Samkeppnismála hefur lækkað sekt sem Samkeppniseftirlitið dæmdi Vífilfell til að greiða um 180 milljónir króna. Nefndin segir brot fyrirtækisins engu að síður alvarleg.

Í mars komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Vífilfell hf. hefði brotið gegn bannákvæðum samkeppnislaga með því að misnota markaðsráðandi stöðu sína á gosdrykkjamarkaði. „Um var að ræða fjölmarga samninga Vífilfells við viðskiptavini (veitingahús og verslanir) er innihéldu ólögmæt ákvæði um einkakaup, skilyrta afslætti og önnur tryggðarákvæði. Með einkakaupum í þessu samhengi er átt við samninga þar sem Vífilfell skuldbatt viðskiptavini sína til þess að kaupa gosdrykki einungis af félaginu en slíkir samningar eru ólögmætir þegar markaðsráðandi fyrirtæki á í hlut,“ segir í tilkynningu en á sínum tíma var Vífilfell dæmt til að greiða 260 milljónir króna í sekt.

Fyrirtækið skaut þeirri ákvörðun til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. „Gerði fyrirtækið margvíslegar athugasemdir við bæði efni ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins og málsmeðferð þess. Taldi fyrirtækið að það væri ranglega talið markaðsráðandi og samningar þess gætu ekki falið í sér brot. Þá hefði andmælaréttur fyrirtækisins verið brotin og rannsókn Samkeppniseftirlitsins verið gölluð.“

Vissulega markaðsráðandi

Áfrýjunarnefnd féllst ekki á þau rök Vífilfells að gosdrykkir teljist tilheyra sama markaði og t.d. mjólkurdrykkir, safar eða aðrir óáfengir drykkir og staðfesti nefndin m.a. með vísun til u.þ.b. 70% markaðshlutdeildar á gosdrykkjamarkaði þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að Vífilfell væri markaðsráðandi. „Staðfesti nefndin einnig þá niðurstöðu að Vífilfell hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Benti nefndin á að einkakaupasamningar markaðsráðandi fyrirtækja væru til þess fallnir að útiloka eða takmarka verulega samkeppni frá minni eða nýjum keppinautum,“ segir ennfremur.

Í úrskurðinum segir áfrýjunarnefnd að hún telji brot Vífilfells alvarleg en engu að síður er sektin lækkuð umtalsvert. „Samkeppniseftirlitið hafði talið rétt að leggja á Vífilfell 260 mkr. sekt, m.a. með vísan til umfangs brotsins en um var að ræða tæplega 900 ólögmæta samninga. Áfrýjunarnefnd lækkaði hins vegar sektina í 80 mkr. Til stuðnings þessu benti nefndin á að mikilvægt væri að „samhengi og samræmi, eins og við getur átt, sé á milli ákvarðana sekta í samkeppnismálum. Er því sérstaklega horft til úrlausna áfrýjunarnefndar í málum sem varða misnotkun á markaðsráðandi stöðu undanfarin misseri."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×