Innlent

Löngu tímabært að endurskoða valdsvið forsetans í stjórnarskrá

Heimir Már Pétursson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson segir að hingað til hafi ekki verið vaninn að greina frá efni Ríkisráðsfunda opinberlega.
Guðni Th. Jóhannesson segir að hingað til hafi ekki verið vaninn að greina frá efni Ríkisráðsfunda opinberlega.
Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur telur brýnt að breyta ákvæðum stjórnarskrár um valdsvið forseta Íslands enda hafi það staðið til allt frá árinu 1944. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, telur sig ekki hafa brotið trúnað með því að greina frá deilum á fundum Ríkisráðs sem hingað til hafa verið haldnir í kyrrþey.

„Ár drekans“, bók Össurar Skarphéðinssonar, kemur út í dag en þar greinir hann meðal annars frá átökum milli ráðherra fyrri ríkisstjórnar og Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Ísland á ríkisráðsfundum árið 2012, sem er ár drekans samkvæmt kínversku tímatali.

Trúnaður hefur ríkt um hvað fram fer á ríkisráðsfundum hingað til en á einum þeirra greinir Össur frá átökum þegar forsetinn mótmælir því að í stjórnarskrárfrumvarpi ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir að Ríkisráð yrði lagt niður. Össur telur sig ekki vera að brjóta trúnað.

„Þarna eru um að ræða viðburði sem allir eiga að vita um. Þarna blossa upp og krystallast nánast átökin sem voru milli forsetans og ríkisstjórnarinnar allt kjörtímabilið. Að minnsta kosti eftir bankahrunið, eftir Icesave og það er mál sem einfaldlega á að segja frá. Og ég segi frá því mjög nákvæmlega,“ sagði Össur í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur sem sérhæft hefur sig í sögu forsetaembættisins segir að það sé nýtt að menn geri þetta nýstignir út úr ríkisstjórn.

„Og það er líka nýtt að Ríkisráð sé eitthvað annað en yfirþyrmandi formlegur vettvangur þar sem formlegar ákvarðanir eru teknar og formlegheitin yfirum og alltum kring,“ segir Guðni.

Spennandi verði að sjá hvernig Ríkisráð þróist, lifi það yfirleitt áfram.

„Hver forseti mótar embættið eftir sínu höfði og svigrúmið (í stjórnarskránni) sem þjóðhöfðingi hefur hverju sinni er afskaplega mikið,“ bætir hann við.

Enginn velkist í vafa um að forsetinn hafi á síðustu árum stigið inn á svið stjórnmálanna og notið við það stuðnings þjóðarinnar a.m.k. í Icesavedeilunni.

„Þannig að ég held að það komi aldrei til þess að það verði einhvers konar þjóðarsátt um það að forseti geti ekki  látið til sín taka t.d. með synjun laga. Það yrði gegn hugmyndum meginþorra manna“, segir Guðni.

Ólafur Ragnar hafi á vissan hátt boðið upp á það að trúnaði um efni ríkisráðsfunda verði ekki haldið.

„Ætli menn að gera Ríkisráð að einhvers konar virkum samræðuvettvangi, eða hvaða orð menn hafa notað yfir þetta, þarf að skoða það í miklu víðara samhengi. Með endurskoðun alls kaflans um völd og verksvið forseta í stjórnarskrá sem er nú  orðið löngu tímabær. Það stóð til að gera það „næsta vetur,“  sögðu menn árið 1944 og það hefur margur veturinn liðið síðan þá,“ segir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×