Lífið

Helköttuð amma einbeitt fyrir mót

Ellý Ármanns skrifar
„Það eru tæpar tvær vikur í mót," segir amman, snyrtimeistarinn og fitnessdrottningin Lilja Ingvadóttir, 41 árs, sem starfar á snyrtistofunni Mizu þegar við forvitnumst hvernig undirbúningurinn gengur hjá henni fyrir Bikarmót Alþjóðasambands líkamsræktarmanna IFBB sem fram fer í Háskólabíói en þar keppir Lilja í fitnessflokki kvenna 35 ára og eldri.



Einbeittari en áður

Hvernig gengur? „Mér hefur gengið mjög vel. Ég hef verið mjög einbeitt, aðeins harðari við sjálfan mig og nýtt mér reynsluna frá fyrsta mótinu sem ég tók þátt í um páskana í fyrra. Garðar Sigvaldason þjálfari hefur líka verið enn harðari við mig enda þekkir hann orðið stelpuna vel og þau þolmörk sem ég hef," segir Lilja. 

„Ég hef haft meiri ánægju af þessum undirbúningi þar sem öryggið er meira. Ég er sífellt að bæta í reynslubankann."

Nýjar áherslur - einfalt fæði

„Nú er aðaláherslan að vera betur skorin á keppnisdegi en síðast en það þarf meiri vöðvaskurð í fitnessflokki en til dæmis í módelfitness til að sýna betur fram á vöðvamassann sem maður hefur verið að vinna að síðastliðna mánuði."

„Ég er að taka mikið brennsluæfingar og lyfti léttar til að tóna vöðvana betur. Fyrir utan það er ég á mjög einföldu fæði núna síðustu vikurnar. Ég nærist á proteini, olíum, kjöti og grænmeti," útskýrir hún.

Reynir að stinna húðina

„Fyrir mig þá hefur mikil vinna farið í húðina og að stinna hana – og það hef ég gert bæði í Bailine vaxtarmótun og Systraseli. Eflaust vegna þess að ég var aðeins stærri hér áður fyrr – en ég hef náð ofsalega góðum árangri sem hefur tekið sinn tíma. Ekkert nema þolinmæðin þar.  En þessa dagana og fram að móti erum við að tala um að æfa vel sviðsframkomu, stöður og pósur. Því allt snýst þetta á endanum um að sýna sem best þá vinnu sem ég er búin að leggja á mig síðastliðinn mánuði og ár sem og flotta sviðsframkomu sem skiptir gríðarlegu máli. Þannig að það er að mörgu að hyggja."

Lilja fyrir fjórum árum - 35 kg þyngri en hún er í dag.
Lilja er í hörkuformi og æfir stíft þessa dagana.
Gleðin og ánægjan skiptir máli

„Ég stefni á að koma enn sterkari á mótið núna. Vera sátt við formið og hafa gleði og ánægju við völd. Að sjálfsögðu vill maður komast á pall og vinna. En ég mun keppa í flottum hópi íslenskra kvenna og það eitt er frábært að geta verið í þeim hópi - sátt og ánæg," segir Lilja að lokum.

Garðar þjálfari Lilju er með vefsíðuna matardagbok.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.