Viðskipti innlent

Ráðstefna um skapandi greinar - Viðbrögð við niðurskurði ríkisins

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Oliver Luckett heldur fyrirlestur en hann sér um samfélagsmiðlun fyrir fræga fólkið.
Oliver Luckett heldur fyrirlestur en hann sér um samfélagsmiðlun fyrir fræga fólkið. mynd/365


You are in Control ráðstefnan er haldin í Bíó Paradís í dag og á morgun. „Á ráðstefnunni verða rædd viðbrögð við nýju fjárlagafrumvarpi en samkvæmt því er lagt til að fjárframlög ríkisins til lista verði skorin niður um 350 milljónir,“ segir Anna Ásthildur Thorsteinsson, kynningarstjóri ráðstefnunnar.

„Við þurfum að finna nýjar leiðir fyrir listamenn til þess að fjármagna og markaðssetja sig,“ segir Anna.

Hún segir ráðstefnuna hafa verið haldna í nokkur ár. Í upphafi hafi hún verið meira tengd tónlist en núna sé ráðstefnan fyrir allar skapandi greinar.

Anna segir mikla umræðu hafa átt sér stað vegna niðurskurðarins. Ef aðstæður breytist ekki sé ljóst að það verði að bregðast við með auknu samstafi og þekkingarmiðlun og með því að samnýta þær takmörkuðu auðlindir sem enn eru í boði.

„Þetta er tækifæri fyrir hönnuði og listamenn, sem annars hittast aldrei, að koma saman og skiptast á skoðunum og reynslusögum um hvernig best sé að vinna, hvað virkar og hvað ekki,“ segir hún. „Listamenn eru í raun eins og mörg lítil sprotafyrirtæki.“

„Við fengum Oliver Lucett  til að koma, hann sá um samfélagsmiðlun fyrir Disney. Hann stofnaði síðan sitt eigið fyrirtæki og sér alfarið um samfélagsmiðla fyrir frægt fólk, til dæmis leikara og tónlistarmenn. Það hvílir mikil leynd yfir hans starfi og því var einstakt að fá hann til að koma og tala. Hann heldur fyrirlestur eftir hádegi í dag,“ segir Anna.

Ráðstefnan er haldin í samstarfi við Kvikmyndamiðstöð, ÚTÓN, Hönnunarmiðstöð, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Tölvuleikjamiðstöð, Tónverkamiðstöð og Leiklistarsamband Íslands.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×