Innlent

Þriðjungur kvenna í lögreglunni orðið fyrir kynferðislegri áreitni

Hrund Þórsdóttir skrifar
30,8% kvenna í lögreglunni telur sig hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni en 4,1% karla svara sömu spurningu játandi. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem Ríkislögreglustjóri lét gera í samstarfi við kynjafræðideild Háskóla Íslands.

Katrín Salima Dögg Ólafsdóttir, jafnréttisfulltrúi lögreglunnar, segir niðurstöðurnar sláandi.

Hvað í þessu samhengi veldur þér mestum áhyggjum?

„Að þessi mál koma ekki upp á yfirborðið,“ segir Katrín.

Samkvæmt skýrslunni er áreitnin sjaldnast aðeins eitt tilvik og nær allir, eða 93,1%, segja hana hafa átt sér stað í vinnunni. Aðeins ein lögreglukona sagðist á síðasta ári hafa formlega tilkynnt áreitni en ekki var brugðist við. Þá kvaðst ein hafa sagt frá áreitni af hálfu næsta yfirmanns síns en fékk þau svör að viðkomandi yrði brjálaður ef hann yrði sakaður um áreitni. Ekkert var aðhafst.

„Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar þá virðist ekki ríkja traust og þar þurfum við að bregðast við. Öðruvísi getum við ekki tekið á vandanum,“ segir Katrín.

Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, segir koma á óvart hversu umfangsmikill vandinn sé. „Og í kjölfarið vakna spurningar um hvernig við bregðumst við. Við höfum þegar ákveðið að fara þá leið að taka upp ákveðinn farveg þannig að þessi mál fari í samráðsvettvang eða einhvers konar ráð, helst utan lögreglunnar,“ segir hann.

Gerendur innan lögreglunnar eru oftast karlkyns samstarfsmenn, eða í helmingi tilfella en einnig er algengt að karlkyns yfirmenn áreiti undirmenn sína, eða í 32% tilfella.

Haraldur segir könnunina undir nafnleynd svo ekki sé vitað nákvæmlega hvaða einstalingar eigi í hlut. „En að mínu viti er aðalmálið að við lærum af þessari rannsókn,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×