Innlent

Væntir þess að Landspítalinn fái það sem þarf til viðspyrnu

Jakob Bjarnar skrifar
„Þetta er bara nýskeð. Ráðherra hafði samband við mig í seinnipartinn í síðustu viku og í rauninni bar þetta upp við mig þá," segir Páll.
„Þetta er bara nýskeð. Ráðherra hafði samband við mig í seinnipartinn í síðustu viku og í rauninni bar þetta upp við mig þá," segir Páll. Mynd/Vilhelm
Páll Matthíasson geðlæknir er nýr forstjóri Landspítala. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra tilkynnti um stöðuveitinguna nú á 12. tímanum. Björn Zoega sagði sig frá starfinu fyrir helgi með þeim orðum að hann ætlaði ekki að verða maðurinn sem færi með spítalann yfir bjargbrúnina. Páll tekur því við erfiðu búi, en verkefnið leggst ágætlega í hann.

„Ég þekki verkefnið í rauninni vel. Ég er búinn að vera í framkvæmdastjórninni með Birni [Zoëga, fráfarandi forstjóra] í fjögur og hálft ár og hef stundum leyst hann af. Þannig að ég er ekki alveg ókunnur starfseminni," segir Páll. „Einhver þarf að taka við stýrinu og tryggja það að þessi vagn haldist á sporinu. Það er verkefni mitt og í rauninni alls spítalans að gera það.“

Páll segir stutt síðan að ráðherra hafi komið að máli við hann. „Þetta er bara nýskeð. Ráðherra hafði samband við mig í seinnipartinn í síðustu viku og í rauninni bar þetta upp við mig þá," segir Páll og viðurkennir að þetta hafi verið erfið ákvörðun.

„Þetta er það auðvitað. Staða spítalans er erfið. Ég bara trúi og treysti því að þingið og ríkisstjórnin vinni með okkur starfsfólkinu í að finna lausnir á þessum vanda sem blasir við. Að því leyti er þetta erfitt en á móti kemur að ég þekki spítalann vel og veit að þar vinna hátt í fimm þúsund frábærir einstaklingar. Það er tilhlökkunarefni að fara að vinna með því góða fólki enn frekar en áður.“

Spurður hvort hann njóti stuðnings í starfinu segir Páll: „Ég vona það. Þetta snýst ekki um mig. Ég er bara einn af hátt í fimm þúsund starfsmönnum og við þurfum bara að vinna saman. Ég mun fara inn á við og leita leiða til að leiða spítalann áfram.“

Fjárlög verða lögð fram nú um mánaðarmótin. Líklegt verður að teljast að heilbrigðisráðherra hafi leyft Páli að skoða í þau áður en hann tók ákvörðun um að taka að sér þetta mikla verkefni?

„Já, ég hef aðeins fengið að skyggnast í það, eins og Björn áður, og er bundinn trúnaði með það. Næstu vikur fara í umræður um fjárlög og ég treysti því að við munum eiga gott samstarf við þingið um það að Landspítalinn fái það sem þarf til að ná viðspyrnu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×